Skip to main content

.

 

Farfuglarnir og heljarþrömin - Sigríður Lára Sigurjónsdóttir

Farfuglar og heljarþröm

Alla mína ævi hef ég upplifað umræðu um fólksflótta af landsbyggðinni. Ekki sér út úr augum fyrir svartsýni, allir eru á leiðinni burt og allt í volæði.

Nú var ég svo heppin að komast aðeins á Vestfirðina og heilmikið á Austfirðina í sumar. Það var dásamlegt. Ég sá ýmis lítil, og kannski minnkandi, bæjarfélög í sól sem regni. Þeir verða fallegri með hverju árinu. Mér finnst frábært að alls staðar hefur verið gerð mikil gangskör í að fegra bæina. Í þessu hefur verið gríðarleg framför á undanförnum tuttugu árum. Það sama má segja um einstaklinga. Húsum er almennt vel viðhaldið. Garðar eru margir hverjir orðnir svo fallegir og smekklegir að unun er á að líta. Og litlir staðir hafa það fram yfir þá stærri að þar sér maður óspillta náttúru inn á milli. Jafnvel bara á milli húsa inni í miðjum bæ. Það sem mér finnst litlir og fámennir staðir hafa til síns ágætis er einmitt það að þeir eru litlir og fámennir. Alls staðar virtust menn sýsla glaðir við sitt og hvernig sem ég leitaði sá ég nú hvergi heljarþrömina. En ánægja er víst ekki fréttnæm.

Þegar menn eru ungir vilja þeir sjá sig um og skoða heiminn. Þegar fólk er ungt vill það gjarnan búa í stærra samfélagi. Sumir vilja halda því áfram. En þurfa öll samfélög að vera stór? Í litlum og fámennum samfélögum býr fólk sem þar vill búa. Er það slæmt? Má ekki unga fólkið reyna vængina og athuga málin í burtu? Einhverjir koma kannski aftur. Eins og farfuglarnir. Gera sér hreiður og unga út.

Ég held helst að "flótti" ungs fólks í stærri samfélög sé ekki endilega vandamál heldur staðreynd og hluti af hringrás lífsins. Á Íslandi er fyrirkomulag þéttbýlisins bara svo nýtt að við erum ekki enn almennilega farin að sjá mynstrið í því hvernig þetta virkar og sjáum stundum vandamál sem eru ekki endilega til staðar. Og það er skiljanlegt. Í mörghundruð ár sátu menn helst á sömu þúfunni alla ævi. Nema þeir sem hröktust til Ameríku. Núna flytur fólk. Það kemur og fer, skiptir um vinnu, fer að læra eitthvað allt annað á miðjum aldri og lætur sér oft detta í hug að breyta um lífmynstur. Og í dag er það bara allt í lagi. Atvinnulífið breytist líka og þróast. Sumir elta fjölmenna vinnustaði. Aðrir leggja af stað með pínulitla hugmynd. Enn aðrir geta unnið við margt og velja sér samastað eftir öðru í samfélagsgerðinni heldur en endilega atvinnutækifærum.

Nú bý ég í Borg Óttans og er ásamt mörgum öðrum á mínu reki farin að horfa löngunaraugum út á land. Að mörgu leyti. Spurningin er bara hvort maður nennir að búa við störuna á hausafjöldann og bölmóðinn um heljarþrömina.