Skip to main content

.

 

Leitað til Móður Jarðar

Móðir Jörð

Eymundur Magnússon, bóndi í Vallanesi, í viðtali við Magnús Stefánsson

Sérstök upplifun fylgir heimsókn að Vallanesi á Fljótsdalshéraði og ekki síst þegar náttúran skartar sínu fegursta á björtum sumardegi. Þegar ekið er inn Vellina og horft til vesturs yfir Grímsána og Nesið lætur landið ekki neitt sérlega mikið yfir sér og jafnvel ekki enn þegar haldið er eftir heimreiðinni að staðnum þótt vöxtulegur skógurinn fangi strax athyglina. Það er ekki fyrr en sýn opnast út yfir akurlendið, umvafið skjólbeltum, að sérstaða jarðarinnar og glæsileiki kemur að fullu í ljós. Ung hjón, Eymundur Magnússon og Kristbjörg Kristmundsdóttir, hófu búskap í Vallanesi fyrir rúmum 30 árum. Af ótrúlegri bjartsýni gerðust þau frumkvöðlar í lífrænni ræktun grænmetis og korns en mættu lengi vel litlum skilningi samferðamanna. Uppskeran hefur vaxið hröðum skrefum og Eymundur vinnur að fjölbreyttri vöruþróun ásamt núverandi konu sinni, Eygló Björk Ólafsdóttur. Hann segir lesendum Glettings frá ræktunarbúskapnum í Vallanesi og framleiðslu fullunninnar vöru úr íslenskum jarðargróða.

Foreldrar mínir eru Magnús Pálsson frá Veturhúsum í Eskifirði og Sigríður Eymundsdóttir frá Flögu í Skriðdal. Þau bjuggu í Reykjavík þegar ég fæddist, árið 1955. Hugur minn leitaði fljótt á slóðir forfeðranna og ég fór austur í Flögu í Skriðdal á hverju einasta sumri strax sem lítill krakki og heillaðist af sveitinni, söng lóunnar og því að vera úti í móa og í náttúrunni. Ég fór eins snemma á vorin og mögulegt var úr skólanum og mætti eins seint og hægt var í skólann á haustin, fór á jólum og páskum líka. Ég var ekki nema sex til átta ára gamall þegar ég ákvað að verða bóndi, var með það alveg á hreinu. Það var ýmislegt sem sótti á seinna, eins og gullsmiðurinn og leikarinn en bóndinn varð öllum öðrum yfirsterkari.

Ég gekk í Vogaskóla í Reykjavík sem var mjög fjölmennur skóli, Vogarnir voru að byggjast upp á þessum tíma. Þá tíðkaðist að haldnar voru starfsvikur í skólanum, nemendur gátu valið sér fyrirtæki til að heimsækja og fengu aðeins að vinna þar. Ég valdi að fara til gullsmiðs því að ég hafði dundað við það í sveitinni að búa til hringa, boraði göt á tveggja krónu peninga og fimmkalla og barði þá síðan út á hjólnöf af Skoda. Það trúlofaði sig meira að segja fólk með þessum hringum sem ég smíðaði. Hún leitaði svolítið á mig, sköpunin í þessu fagi þótt ekki yrði úr frekari kynnum við hana.

Leiklistaráhugi hefur fylgt mér alla tíð og ég tók þátt í nokkrum sýningum með Leikfélagi Fljótsdalshéraðs. Eins hef ég oft lesið sögur og ljóð á mannamótum og fyrir útvarp. Það form hentar mér betur með búskapnum því það er mjög bindandi að taka þátt í uppfærslu á sviði.

Ég fór í Bændaskólann á Hvanneyri strax eftir gagnfræðapróf og síðan í Lýðháskólann í Skálholti með það nánast eitt í huga að bæta við mig kunnáttu í tungumálum til þess að geta síðan farið til útlanda til frekara náms í skóla lífsins. Það gerði ég síðan um tvítugt og fór til Noregs og var þar í eitt ár, á tveimur kúabúum. Fyrst var ég á stóru búi innst í Þrándheimsfirði. Þar lærði ég margt nýtt, heyjað var í flatgryfjur og kýrnar fóðraðar á mysu. Það var ýmislegt sem ég gat tileinkað mér af þeirri reynslu sem ég öðlaðist þarna. Síðara búið, sem ég var á, er efst í Guðbrandsdal. Það er í 600 m hæð og þar er allt annað landslag, líkara því sem er hér heima. Þarna var ekki plantað skjólbeltum að ráði en menn höfðu búið til hreiður fyrir tún inni í skóginum. Þar smitaðist ég og þar er kannski rótin að því að ég fór að planta skjólbeltum þegar ég kom í Vallanes.

Síðan var ég heima um tíma en fór svo fljótlega til Bretlands. Ég ætlaði að vera þar í hálft ár en var ekki nema þrjá mánuði því að ég taldi mig læra mest um það hvernig ekki ætti að búa. Þarna var heldur sóðalegur búskapur sem ég hafði ekki mikinn áhuga á. Stéttaskiptingin var mikil, eina skiptið sem ég kom í stássstofu heimilisins var þegar ég fór til að segja upp. Þetta átti ekki alveg við svolítið villtan Íslending.

Eftir þetta fór ég beint til Svíþjóðar, til Eyþórs frænda míns frá Flögu sem hefur verið læknir í Svíþjóð í fjölda ára og ég var hjá honum um jól. Ég fór svo að vinna á stóru ríkisbúi og var þar einn með sextíu kúa fjós í hálft ár. Ég lærði mikið þennan tíma og hafði einnig ágætar tekjur.

Við fundum Vallanes

Áður en ég fór til Bretlands hafði ég kynnst Kristbjörgu Kristmundsdóttur sem síðar varð konan mín. Hún ílengdist hjá mér í Svíþjóð þó hún hefði bara ætlað að vera hjá mér í jólafríinu frá skóla og fékk vinnu á heilsustofnun. Eftir heimkomuna gengum við í hjónaband og vorum saman í 23 ár. Við eignuðumst þrjú börn, Júlíus, Þórunni og Gabríel Svein.

Við fluttum fljótlega austur á Hérað, vorum í eitt og hálft ár að leita að jörð og unnum þann tíma á Egilsstöðum. Það var búið að benda okkur á Vallanes sem okkur fannst ekki fýsilegur kostur í fyrstu þar sem hér var nánast engin ræktun, aðeins þriggja hektara túnspilda og hvorki vatn né rafmagn í fjósi. Útihús voru öll að niðurlotum komin og íbúðarhúsið hélt hvorki vatni né vindi.

En við flytjum samt í Vallanes vorið 1979, þetta kalda vor, það var skafl hérna á hlaðinu um miðjan júní. Við tókum jörðina á leigu í gegnum sóknarprestinn, séra Vigfús Ingvar Ingvarsson. Seinna tók svo landbúnaðarráðuneytið við jörðinni. Við vorum búin að fara hér um allar sveitir og skoða eyðijarðir og jarðir sem voru að losna en fundum enga sem höfðaði beint til okkar. Það voru menn hérna á Völlum búnir að leiða okkur fyrir sjónir að Vallanes væri kostajörð þótt hún liti ekki þannig út á þessum tíma. En svo kom það í ljós seinna að hér er alveg albesta ræktunarland sem hægt er að hugsa sér. Það er fullra tveggja metra jarðvegsdýpt á Nesinu, valllendismóar og mjög frjósamur jarðvegur.

Ég fékk Reyni, sveitunga minn í Mjóanesi, til að skafa þúfnakollana niður með ýtunni og svo gat ég farið að tæta landið. Ég byrjaði á grænfóðurræktun og heyjaði í vothey. Þetta gerði ég til þess að brjóta stykkin svolítið niður áður en ég sáði grasfræi. Þannig byrjaði ég ræktunina hér í Vallanesi.

Ég hugsaði eingöngu um kúabúskap á fyrstu árum mínum hér, var með mjólkurframleiðslu og keypti kálfa, þannig að nautakjötsframleiðslan var nokkuð mikil líka. Geldneytin voru höfð í gömlu fjárhúsi hér fyrir neðan. Ég gerði tíu kúa fjós úr gamla fjósinu og sambyggðu hesthúsi og byggði mjólkurhús við það strax fyrsta árið okkar hér og lagði í húsin rafmagn og vatn. Húsin voru ónothæf eins og þau voru. Við bjuggum með kýrnar í tíu ár eða til ársins 1989 og geldneytin fimm árum lengur.

Móðir Jörð Móðir Jörð

Viðurkenndur sérvitringur

Að frumkvæði Kristbjargar fórum við fljótlega að rækta lífrænt fyrir okkur sjálf og svo fór fólk úr Reykjavík að hringja til okkar og spyrja hvort það gæti keypt af okkur lífrænt ræktað grænmeti. Ekki fór vel saman að stunda nautgriparæktina áfram samhliða vaxandi grænmetisframleiðslu og auk þess var verð á nautakjöti lágt á þessum tíma. Ein aðalástæðan fyrir því að ég hætti mjólkurframleiðslu var kvótinn sem settur var á hana. Ég var að hefja búskapinn á þessum svokölluðu viðmiðunarárum, mönnum var skammtaður kvóti eftir framleiðslunni. Ég var með litla framleiðslu í upphafi og lokaðist af með lítinn kvóta. Ég byggði stóra hlöðu árið 1983 og hefði þurft að byggja nýtt fjós og kaupa kvóta og kýr. Á þessum árum, við að rækta jörðina, planta öllum þessum trjám og plægja og tæta akrana, var ég búinn að uppgötva að ræktunarmaðurinn í mér er sterkari en kúabóndinn. Það hjálpaðist því allt að við að breyta til og markaðurinn kallaði á lífrænt ræktaða vöru. Og árið 1990 verður lífræn ræktun aðalbúgrein í Vallanesi.

Þetta þótti hið allra versta mál hér allt í kringum mig og fólk mjög nákomið mér spáði okkur glötun. Að hætta með kýrnar og fara út í lífræna ræktun, það væri bara þvílík hneisa. Fólk fyrtist við okkur og sumum fannst eins og við hefðum svikið þá. Sú hugsun er nokkuð rík – að þegar þú ert búinn að velja þér eitthvert fag eða einhvern stað – þá eigir þú bara að vera þar. Fólki er ekki gefið tækifæri til að þroskast og breytast og velja sér nýtt svið. Menn héldu að öryggið fælist í því hefðbundna en svo kom nú annað á daginn. Ég hef náð því að vera álitinn viðurkenndur sérvitringur. Nú sjá menn að þetta gengur bara ljómandi vel og margir eru farnir að læra af þeirri reynslu sem hér hefur myndast og hingað koma hópar fólks til að líta ræktunina augum. Nú er þetta orðið mörgum fyrirmynd.

Móðir Jörð

Við tókum okkur vörumerkið Móðir Jörð um miðjan níunda áratuginn og fórum að selja undir því merki. Það þótti mjög sérstakt að við skyldum fara að selja undir eigin nafni, það tíðkaðist ekki á þessum tíma. Vaxandi eftirspurn gaf mér kjarkinn til þess að skipta úr kúabúskapnum yfir í lífræna ræktun grænmetis og korns. Fyrst ræktuðum við aðeins kartöflur, gulrætur, gulrófur, salat, steinselju, grænkál, hvítkál og blómkál, þessar algengu útitegundir. Síðan fórum við að fjölga tegundum og ræktunin jókst til muna og vinnan við pökkun grænmetisins. Við hófum líka framleiðslu nuddolíu og ræktun sumarblóma.

Þegar við hættum kúabúskapnum reif ég bárujárnið af fjóshlöðunni og setti plast í staðinn, með tveimur loftrýmum. Þarna fór blómaræktin fram og eftir það nefndum við bygginguna Blómahlöðuna. Hún hefur það heiti enn í dag þótt ekki séu ræktuð blóm þar lengur. Kristbjörg sá að mestu um blómaræktina og sölu þeirra, bæði á Héraðinu og eins fór hún með bílinn fullan af blómum í söluferðir niður á firði.

Grænmetið er forræktað í Blómahlöðunni og í gróðurhúsum, kálplöntur, salöt og fleiri tegundir sem síðan er plantað út. Grænmetið var lengi vel nær eingöngu selt til Reykjavíkur en með auknum straumi ferðamanna eru hótelin á svæðinu farin að versla mikið við okkur á sumrin.

Ég hef aukið fjölbreytni í ræktun grænmetis á síðustu árum og bætt við rauðrófum, hnúðkáli, púrru og mörgum salattegundum, strandblaðka er ein tegundin og síðan kom klettasalat og meira kryddaðar tegundir, kryddblóm og matblóm sem kokkarnir nota til að skreyta diskana.

Síðan 2001 hef ég verið í sambandi við alþjóðleg samtök sjálfboðaliða og fengið þaðan ungt fólk sem vill hjálpa til við lífræna ræktun. Þau koma sem ferðamenn og vinna hér fyrir fæði og húsnæði, dvölin hér er bara hluti af þeirra ferðalagi um heiminn. Þau vinna meðal annars við útplöntun grænmetis og reyta arfa, þau vinna við uppskeruna og pakka grænmeti. Þetta er litríkur hópur, oft listafólk sem er jafnvel nýútskrifað úr skóla, frjótt, ungt fólk. Um 60 ungmenni koma hingað árlega og alþjóðlegt andrúmsloft ríkir meðan þau dvelja hér og mörg tungumál töluð. Margir taka ástfóstri við staðinn, koma ár eftir ár og geta þá sinnt verkstjórn og leiðbeint nýliðunum.

Móðir Jörð Móðir Jörð

Skógræktin

Árið 1983 byrjaði ég að rækta skjólbelti og næstu ár jók ég þá ræktun mikið. Þetta eru orðin himinhá tré í dag. Fljótlega eftir það bjargaði ég þúsundum aspa frá Skógræktinni á Hallormsstað sem annars hefði verið hent vegna þess að þær voru toppkalnar og voru ekki taldar nýtanlegar. Ég sótti marga heyvagna af þessum öspum og kom þeim niður í jörðina. Þær eru nú vöxtuleg tré sem veita akurlendinu gott skjól og sér ekki á þeim að toppar þeirra hafi kalið á sínum tíma.

Árið 1989 fór ég að planta nytjaskógi. Það var síðasta ár Fljótsdalsáætlunar og síðan tóku Héraðsskógar við. Á næstu árum var svo plantað milljón trjám í landareigninni. Þótt ég hefði ekki gert neitt annað finnst mér þetta raunverulega það sem ég er stoltastur af sem mínu ævistarfi – að skilja eftir þennan skóg í Vallanesi. Og lífið sem þessi skógur hefur skapað – það skal ekki vanmeta. Hingað hafa komið bændur utan af Héraði og orðið þögulir hérna á hlaðinu hjá mér og undrast hversu fuglalífið er mikið. Þetta er sannarlega hinn andlegi gróði af skóginum, fuglalífið og þetta mikla skjól sem skógurinn hefur skapað. Um leið myndast skjól fyrir ræktunina sem gerir mér kleift að rækta fleiri tegundir og rækta betur en ég gæti annars á berangri. Munurinn er gífurlegur, maður gengur inn í skjól á milli beltanna en um leið og farið er út af hinu skýlda svæði er komið í vindstreng. Rakinn helst betur í jörðinni, jarðvegurinn verður heitari og allt vex betur.

Nytjaskógurinn er allt í kringum ræktunarsvæðið sem er umgirt skjólbeltum. Í þeim er alaskavíðir, viðja, gulvíðir, reynir, birki og ösp. Í nytjaskógræktinni var byrjað að planta lerki í rýrasta landið en síðan var plantað furu, greni, ösp, birki og þin. Ég hef flutt jólatré til Reykjavíkur síðustu þrjá vetur og selt sjálfur. Þannig að ég er farinn að hafa aðrar nytjar af skóginum en skjól og yndi. En ég legg mikla áherslu á útivistargildið og að skógurinn sé til að njóta hans líka. Þess vegna langar mig að leggja fleiri göngustíga með viðarkurli um skóginn. Það er mér heilög tilfinning að fara um skóginn, eins og að ganga inn í stóra kirkju og ég vil gefa fólki tækifæri til að kynnast skóginum, tína sveppi og ber og njóta umhverfisins. Ég segi það nú bæði í gamni og alvöru að ég hefði gjarnan viljað róa mig aðeins niður í brauðstritinu og hafa meiri tíma til að njóta skógarins, planta blómstrandi runnum og einhverjum sérstökum trjám, eins og eplatrjám til að auka fjölbreytnina í þessum sælureit.

Móðir Jörð Móðir Jörð

Kornræktin

Kornræktina hóf ég á meðan ég var enn með kýrnar, um 1985 og við það jókst fjölbreytnin í ræktunarstarfinu. Ég súrsaði kornið, notaði til þess mysu og nautgripirnir voru alveg vitlausir í það. Þetta kom mjög vel út. Síðan kviknaði sú hugmynd að þurrka kornið, slípa af því mesta hýðið og bjóða bygg til manneldis. Ég var nær eingöngu að hugsa um það sem heilkorn í bakstur, á það lagði ég aðaláherslu í upphafi. Fyrstu árin notaðist ég við súgþurrkunarblásara og var búnaðurinn frekar frumstæður og vinnan mikil og erfið. Síðar hafði ég ráð á því að koma upp betri aðstöðu og búnaði. Ég er svo heppinn að Júlíus sonur minn er vélsmiður og hann setti upp þurrksíló fyrir mig. Þar með var ég kominn með fullkominn búnað til að framleiða korn til manneldis. Ég er með norska vél frá 1936 sem slípar byggið, tekur af því ysta hýðið sem er of gróft fyrir okkur. Þar með er ég kominn með Bankabygg, er búinn að banka af því hýðið, svo er ég með steinkvörn til að framleiða byggmjöl. Því er handpakkað enn í dag og ég veit ekki hvort pökkunin verður vélvædd. Þetta þarf að taka í skynsamlegum skrefum allt saman.

Um aldamótin fór ég að hugsa um hvort ekki mætti framleiða fullunnar vörur úr hráefninu sem hér er ræktað, eins og byggi og grænmeti. Þá höfðu að vísu í nokkur ár verið framleiddar nuddolíur eftir uppskrift Kristbjargar sem innihalda meðal annars birki og blágresi. Við Þórunn dóttir mín hönnuðum þrjár gerðir grænmetisbuffa. Grunnurinn í þeim er Bankabygg og síðan grænmeti, kartöflur, baunir og krydd. Þessi buff má finna frosin í flestum betri verslunum og eru þau mjög hollur matur.

Ég fór svo að bjóða byggið sem valkost í stað hrísgrjóna. Þá kviknaði nýr eldur í mér sem er markaðsmaðurinn og ég hef gífurlega gaman af að kenna fólki að borða bygg. Fólki fannst dálítið skrýtið þegar ég fór, fyrir rúmum tíu árum síðan, að markaðssetja byggið og ég var spurður hvort þetta væri ekki bara fyrir svín. Síðasta áratug hef ég notað veturna til kynninga í verslunum í Reykjavík. Þá elda ég úr byggi, Morgungraut Gabríels, baka byggbrauð og bý til byggotto og fleira. Það er þannig sem ég bý til þennan markað. Eldra fólk kannaðist við að bygg var áður fyrr notað við matargerð en það hafði legið niðri um mörg ár. Ég er búinn með þessari aðferð að byggja upp stóran markað og sel árlega tugi tonna af byggi til manneldis. Ég tel mig gera neytendum gott með því að koma þeim til þess að nota byggið því það er gott fyrir magann og meltinguna. Svo er þjóðhagslega hagkvæmt að nota byggið í stað hrísgrjóna eða annars innflutts korns.

Enn er Vallanes eini staðurinn á landinu þar sem lífrænt korn er ræktað til manneldis og kornræktin hefur farið vaxandi. Ég ræktaði bygg á 30 hekturum lands í ár og hveiti á þremur. Ég ákvað að prófa það í vor, gat sáð snemma og uppskeran var góð. Það er spennandi að bæta hveitinu við og fljótlega förum við að mala og selja heilhveiti. Svo sáði ég repju í sumar og er að spá í olíuframleiðslu á næsta ári ef það lukkast. Þá er ég ekki að hugsa um olíu á dísilvélar eins og margir gera heldur matarolíu og nuddolíu jafnvel.

Lífrænn áburður

Ég bý á ákaflega frjósamri jörð sem gefur mikið af sér og tilkoma skjólbeltanna hefur gert það að verkum að hér er heitari og lífmeiri jarðvegur en annars væri og plönturnar eiga að hafa meira úr jörðinni eins og hún er. En síðan þarf alltaf að skila moldinni einhverjum áburðarefnum. Ég fékk á tímabili mikið af fiskúrgangi frá Herði í Fellabæ og kom honum í jörðina og hún býr að því ennþá, þetta er áburður sem hefur áhrif í langan tíma. Síðan hef ég fengið húsdýraáburð hjá sauðfjár- og hrossabændum hér í kring. Ég get líka notað fiskimjöl og fæ það í Neskaupstað, þar er framleitt vottað mjöl og síðan get ég líka ræktað minn áburð. Það er kannski mest spennandi og þar kemur lúpínan til sögunnar. Ég hef sáð lúpínu í stór stykki og leyft henni að koma sér vel fyrir og síðan plægt landið og farið að rækta þar. Greinilegt er að ræturnar eru þá búnar að binda heilmikið af köfnunarefni. Með því að slá lúpínuna strax eftir að hún er búin að skjóta fræjunum get ég flutt mjög mikið magn af köfnunarefni af lúpínuakrinum yfir í aðra akra eða í safnhauginn. Síðan er hægt að rækta aðrar belgjurtir, eins og smára og fleira í þessum sama tilgangi. Ég hef til dæmis sáð rauðsmára sem botngróðri í skjólbelti til að fóðra trén. Það eru margar leiðir til að vera sjálfum sér nægur og mér finnst þetta mjög spennandi verkefni.

Hugsunin að baki lífrænni ræktun er þetta fornkveðna: Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða, af jörðu skaltu aftur upp rísa. Það er þessi hringrás efnanna sem er svo náttúrleg. Þú finnur strax þegar þú borðar lífrænt að það er sætara og bragðmeira og í því einhvern veginn betra jafnvægi heldur en í grænmeti sem er látið vaxa hratt með tilbúnum áburði.

Vaxandi fjöldi fólks kýs vörur sem eru ræktaðar á þennan hátt, í þessari hringrás og í sátt við náttúruna. Þeir sem kaupa lífrænt segjast fá hollari vöru og miklu betri nýtingu. Grænmetið, sem ég er með, nýtist til fullnustu en þegar ódýrasta grænmetið er keypt er hætt við að einhverju þurfi að henda. Lífræna varan er þá kannski lítið dýrari þegar málið er skoðað til enda og í raun mun ódýrari ef náttúruverndarsjónarmið eru tekin með í reikninginn. Þá á ég við mengun jarðvegs og grunnvatns sem mikil notkun tilbúins áburðar og eiturefna hefur í för með sér.

Móðir Jörð

Vöruþróun

Í nokkur ár hef ég verið að þróa nýjan drykk, byggmjólk og er hún væntanleg á markað snemma árs 2011. Matís er að hjálpa mér að fullþróa hana. Þetta er einn meiðurinn af þeirri hugsun, hvernig ég geti notað byggið meira. Byggið er lagt í vatn og síðan er salti og bragðefnum bætt í. Þetta er dálítið líkt mjólkurframleiðslu, gerilsneyða þarf drykkinn og fitusprengja. Markaður fyrir drykki eins og byggmjólkina fer vaxandi því að margir hafa ofnæmi fyrir kúamjólk eða bara vilja hana ekki. Þeir geta keypt innflutta drykki, eins og soyjamjólk, hrísmjólk, möndlumjólk og fleira en enginn framleiðir drykk líkan byggmjólkinni hér á landi. Svo spillir ekki að hún er einnig mjög bragðgóður drykkur.

Vaxtarsamningur Austurlands hefur stutt þessa þróunarvinnu og Framleiðnisjóður einnig svo að til eru aðilar sem hafa trú á þessu verkefni. Þarna er um mikla nýsköpun að ræða og ekki lítill þjóðhagslegur fengur að framleiða í landinu vöru sem annars yrði flutt inn. Íslensk framleiðsla hefur mikinn meðbyr sem stendur og hvers vegna skyldum við ekki framleiða meira hér á landi þar sem við höfum þessa hreinu náttúru og bragðmiklar og sterkar afurðir.

Eygló, konan mín, er mikill listakokkur og hefur brennandi áhuga á vöruþróun og saman höfum við komið á markað nýjum vörum sem hún er höfundur að. Það eru Gulrófugló og Rauðrófugló sem eru kryddsultur þar sem við notum, eins og í buffunum, hráefni sem við getum ræktað í Vallanesi. Þessar vörur fóru á markað hjá okkur á síðasta vetri og er vel tekið. Fjórar nýjar sultutegundir litu einnig dagsins ljós og eins prófuðum við að nýta sveppina sem nú vaxa í skjóli skógarins.

Samhliða þessu hófum við á árinu framleiðslu á þremur tegundum af hrökkkexi, í samstarfi við bakara í Hafnarfirði. Það er enn ein byggafurðin. Við þróuðum í sameiningu þrjár bragðtegundir af kexi sem við nefnum Hrökkva. Í kexið eru notuð 30% af byggi og á móti því er lífrænt ræktað hveiti og rúgmjöl og síðan mikið af fræjum. Hrökkvinn fær strax góðar undirtektir og hann hentar mjög vel með kryddsultunum.

Byggflögur er afurð úr korninu okkar sem við byrjuðum að framleiða í haust. Þær verða íslenskur valkostur í stað hafragrjóna og eldamennskan er sú sama. Byggflögurnar má einnig nota í slátur, bakstur og ýmsa aðra matargerð svo þarna má spara gjaldeyri með því að borða íslenskt, hollt og gott.

Á einu ári höfum við því bætt við níu fullunnum vörutegundum og það er aðeins byrjunin. Við erum með fleiri tegundir í burðarliðnum, það er ekki bara byggmjólkin sem er væntanleg. Við vinnum að fleiri vörunýjungum sem varla er tímabært að segja frá því að þær eru ekki komnar það langt á veg.

Eygló er viðskiptafræðingur og hefur lengi unnið í matvælageiranum. Hún mun í framtíðinni sinna markaðsmálunum og er farin að athuga möguleika á útflutningi. Það eiga eftir að opnast nýjar dyr með nýju fólki. Við erum ákveðin í að framleiða meira af fullunnum vörum úr því hráefni sem við getum ræktað sjálf, það er framtíðin. Spennandi verður að takast á við þessi verkefni því að allt of lítið er af íslenskum, fullunnum vörum í verslunum. En það er ekki nóg að varan sé íslensk, holl eða lífrænt ræktuð, hún verður að vera aðlaðandi og bragðgóð og samkeppnisfær við það besta á markaði.

Ég segi stundum í gamni að ég sé að vinna að því að ekki þurfi að leita lengra en til Móður Jarðar, þar geti menn fengið allt á diskinn sem er þeim nauðsynlegt.