Skip to main content

.

 

Ritfregnir

Ritfregnir1Elfríð - frá hörmungum Þýskalands til hamingjustrandar.Ævisaga

Höfundur: Helga Erla Erlendsdóttir
Útgefandi: Bókaútgáfan Hólar
198 bls. Útgáfuár: 2011

Á síðasta ári kom út bókin Elfríð – frá hörmungum Þýskalands til hamingjustrandar eftir Helgu Erlu Erlendsdóttur, dóttur söguhetju. Í bókinni er sagt frá lífshlaupi Elfríðar Pálsdóttur, eða Elfriede Idu Emmu Plötz, fæddri árið 1936 í Þýskalandi og búsettri á Siglunesi við Siglufjörð og Dalatanga í Mjóafirði eystra.
Bókin grípur mann strax í fyrsta kaflanum þar sem sagt er frá því hvernig Elfríð kemst að sannleikanum um faðerni sitt. Blóðfaðir Elfríðar, Paul Friedrik Hermann, var lýðræðissinni sem barðist gegn fasískri stjórnunarstefnu og galt fyrir það með lífi sínu. Fyrri hluti bókarinnar lýsir ógnvekjandi aðstæðum í Þýskalandi, sorg og missi. Nánustu ættingjar Elfríðar og vinir urðu fórnarlömb átaka í seinni heimsstyrjöldinni. Hún kom til Íslands árið 1949 þegar hún gerðist vinnukona að Siglunesi við Siglufjörð. Þar kynntist hún sveitapilti, Erlendi Magnússyni. Þau felldu hugi saman og eignuðust stóran ættboga.
Síðustu árin hafa komið út nokkrar skáldsögur og sagnfræðirit um Þjóðverja sem fluttu til Íslands á eftirstríðsárunum. Fjarlægð er komin á sársaukafullar minningar, tímabært er orðið að skrásetja lífshlaup þessa hóps fólks og horfa á atburði seinni heimsstyrjaldarinnar með gagnrýnum augum eftirlifenda. Aðstæður þær sem Þjóðverjar bjuggu við í styrjöldinni voru nánast ólýsanlega hörmulegar og segja má að þjóðin hafi þjáðst margfalt á eftirstríðsárunum eftir að hafa beðið ósigur í tveimur styrjöldum, þolað ógnarstjórn Hitlers sem og að mæta fordómum alþjóðasamfélagsins eftir stríð.
Þeir Þjóðverjar sem settust að á Íslandi komu margir hverjir úr borgaralegu umhverfi menningar og lista. Þrátt fyrir að koma úr stríðshrjáðu landi voru umskiptin mjög mikil og fyrir marga var það eins og að hverfa aftur í forneskju að setjast að í íslenskri sveit, jafnvel á mjög afskekktum bæjum. Glöggt er gests augað og menningarmunur var mikill á Þjóðverjum og Íslendingum. Klósett voru ekki á öllum bæjum á þessum tíma í íslenskum sveitum (ekki einu sinni kamrar), menn gerðu stykki sín á bak við hús eða í flórinn. Þvottur var soðinn í stórum potti sem var kyntur með eldivið og Elfríð þótti sérkennileg þar sem hún lagði sér „arfa og gras“ til munns. Undarlegt er til þess að hugsa hve stutt er síðan þetta var og hve þjóðin var skammt á veg komin með framþróun.
Ævisaga Elfríðar er mjög áhugaverð aflestrar, hún segir frá atburðum sem snerta mann djúpt, sögu eftirlifanda úr skelfilegri styrjöld. Hún er vitnisburður um það hvernig hægt er að komast í gegnum slíka atburði heill og uppréttur, í henni er lífsbaráttunni í Siglunesi og á Dalatanga lýst og því hvernig Þjóðverjar mættu bæði góðvild og fordómum. Í bókinni er að finna lýsingu á andrúmslofti í sveitum sem er óðum að hverfa, sjálfsþurftarbúskap á afskekktum bæjum þar sem menn urðu að lifa af landinu. Það er lærdómsríkt að skoða þjóðina með augum gestsins þó að gesturinn sé fyrir margt löngu orðinn heimamaður og búinn að kenna landanum margt nýtilegt, til að mynda að rækta dýrindis rósir við ysta haf.
Bókin er prýðilega vel skrifuð, í henni er ágætis flæði og málfar gott. Höfundurinn kemur sögunni vel til skila og ég hvet hana eindregið til frekari dáða á ritvellinum. Ég skora síðan á alla að lesa bókina og kynna sér áhugavert lífshlaup hennar Elfríðar á Dalatanga.

Rannveig Þórhallsdóttir

 

Ritfregnir2Steina Petra

Höfundur texta: Þorgrímur Þráinsson
Ljósmyndir: Erling Ó. Aðalsteinsson o.fl.
Útgefandi: Steinasafn Petru Sveinsdóttur,
Stöðvarfirði. 132 bls.
Prentun: Prentmet ehf.

Sumir halda því fram að heimurinn og lífið hafi skapast af eintómum tilviljunum en þó eru fleiri sem halda við þá gömlu trú að almáttugur guð hafi í upphafi komið öllu af stað og sett því lögmál til að þróast eftir. Hvað sem því líður er það furðuleg tilviljun að stúlkubarn sem fæddist hjónunum Sveini Björgólfssyni og Svanhvíti Láru Pétursdóttur á bænum Bæjarstöðum í hverfinu Löndum við Stöðvarfjörð, á aðfangadag jóla 1922, og skírð var Ljósbjörg Petra María, skyldi verða frægasti steinasafnari Íslands. Það er engu líkara en nöfnin hafi markað lífsbraut hennar, og þá einkum miðnafnið, sem dregið er af gríska orðinu petros= steinn en af því er einnig leitt orðið petrology, hið alþjóðlega heiti steinafræðinnar.
Ætli það hafi heldur verið tilviljun að Petra fæddist og ólst upp á Austfjörðum þar sem steinaríkið er hvað fjölbreyttast hér á landi. Petra var náttúrubarn og fór gjarnan einförum. Því gat ekki hjá því farið að hún rækist á athyglisverða steina og bæri þá heim. Það var þó ekki fyrr en á fullorðinsárum (um 1945) að hún fór að safna þeim skipulega og brátt varð steinasöfnun henni ástríða sem hún réð naumast við og entist henni fram á gamals aldur. Petra var ótrúlega fundvís á sérstæða steina, eins og hún hefði „sjötta sans“ fyrir þeim. Hún sýndi fádæma þrek og þrautseigju við þessa söfnun, gekk oft um fjöll og strendur og bar iðulega þungar byrðar langar leiðir. Hún giftist ung að árum, Jóni Ingimundarsyni sjómanni og þau eignuðust börn og barnabörn er fóru að aðstoða hana við steinasöfnun þegar þeim óx fiskur um hrygg.
Heimili þeirra, í húsinu Sunnuhlíð í Kirkjubólsþorpi, Stöðvarfirði, og garðurinn kringum það, fylltust af steinum og varð smám saman að steinasafni sem margir höfðu gaman af að skoða. Árið 1974 missti Petra mann sinn og á jarðarfarardaginn ákvað fjölskyldan að opna safnið almenningi. Hún bjó lengi í húsinu eftir það en aðrir komust þar naumast fyrir, vegna steinanna. Síðan var húsið stækkað og bætt við rúmgóðum glerskála, þar sem gestir geta sest niður. Smáhýsi í garðinum er tileinkað Petru og steinasöfnun hennar.
Petrusafn er fyrir löngu orðið landsfrægt og raunar hefur orðspor þess borist um víða veröld með þeim mikla fjölda ferðamanna sem hafa skoðað það síðustu tvo til þrjá áratugi. Óhætt er að slá því föstu að ekkert safn á Austurlandi sé jafnfjölsótt og vinsælt af ferðamönnum enda er það á margan hátt einstætt.
Það er nefnilega ekki bara steinasafn, heldur ekki síður listasafn, mér liggur við að segja listaverk, með ótölulegum fjölda litskrúðugra steina, marglitum blómum, runnum, trjám og litlum læk, auk nokkurra myndastytta og gripa af ýmsu tagi. Byggingarnar, sem hýsa nokkurn hluta safnsins, falla vel inn í þetta furðulega listaverk, sem hefur orðið til á löngum tíma og þróast eftir eigin lögmálum eins og náttúran sjálf, án fyrirfram ákveðinnar hönnunar. Þar hafa börn Petru og barnabörn einnig lagt hönd að verki, einkum síðustu árin, og hafa nú fyrir nokkru tekið við rekstri safnsins.
Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður, tók nokkur viðtöl við Petru á gamals aldri, og úr þeim hefur hann spunnið fagra og listræna bók, þar sem rakin er ævisaga hennar, sagt frá því hvernig steinasöfnun varð henni slík ástríða sem raun ber vitni og hvernig steinasafnið varð til. Dregin er upp glögg mynd af þessari sérstæðu konu, sem þegar á unga aldri var skapstór og mikilvirk og meira að segja dyggur áhorfandi fótboltaleikja!
Inn í bókina er vafið myndum, gömlum og nýjum, af Petru og fjölskyldu hennar og stórum, prýðilega gerðum litmyndum af steinasafninu og nokkrum djásnum þess sem Erling Ó. Aðalsteinsson hefur flestar tekið. Inn á milli er skotið ummælum ættfólks hennar og gesta og teknar upp klausur og vísur úr gestabókum.
Hönnun bókarinnar og umbrot eru með ágætum. Bókin er listaverk, ekki síður en steinasafnið sjálft. Svo vildi til að hún varð minningarrit um Petru, sem lést sama ár og bókin kom út, næstum níræð að aldri. Hún hafði síðustu árin verið á dvalarheimili aldraðra á Fáskrúðsfirði en var þó lengst af svo hress að hún gat heimsótt safnið af og til og spjallað við gesti, meðal annars við bókarhöfund og ekki er að sjá að minnið hafi verið farið að förlast. Sumarið 2008 átti undirritaður þess kost að sitja með henni yfir kaffibolla í eldhúsinu í Sunnuhlíð og ræða við hana um safnið. Það var eftirminnileg stund.
Steinar eru merkileg fyrirbæri, ekki einungis að efnafræði og útliti, heldur tengjast þeir hinum huglæga heimi manna sterkum böndum. Þeir hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda. Menn hafa tileinkað þeim ýmsa eiginleika, jafnvel yfirnáttúrlega; þeir eru ríkur þáttur í hjátrú allra þjóða sem víða lifir góðu lífi enn. Þeir hafa tengt okkur við náttúruna, umfram flest annað. Þeir máttugustu voru fyrrum kallaðir „náttúrusteinar“ en meðal þeirra voru lífsteinn og huliðshjálmssteinn, að ógleymdum sjálfum óskasteininum.
Steinasafn Petru dregur dám af þessari ævafornu hjátrú og framkallar hana hjá mörgum gestum, eins og víða má lesa í bókinni. Hins vegar er safnið að litlu leyti fræðilegt. Það er að langmestu leyti ættað úr Stöðvarfirði og Breiðdal og gefur góða yfirlitsmynd af fjölbreytni steintegunda á því svæði. Petra hafði ótrúlega gott minni og virtist muna hvar hver þessara þúsunda steina hafði verið tekinn en skráði það aldrei skipulega. Hins vegar hafa barnabörnin, einkum Unnur Sveinsdóttir, unnið að skráningu safnsins, eftir upplýsingum hennar. Hún á einnig mestan þátt í núverandi uppröðun safnsins enda lærður sýningahönnuður. Yfirgnæfandi meirihluti steinanna tilheyrir jaspisflokki en litbrigði jaspisins eru óteljandi. Nokkur steinasýni hafa verið söguð og slípuð, eins og sjá má á myndum í bókinni, og eru hin mestu djásn.
Segja má að æskilegt hefði verið að greina ítarlegar frá safninu sjálfu og skipulagi þess í bókinni en það væri ef til vill efni í aðra bók eða bækling. (Sbr. einnig grein í Glettingi 18 (2), 2008). Auk þess eru ítarlegar upplýsingar á heimasíðu safnsins, (www.steinapetra.com)
Mér þykir viðeigandi að enda þetta spjall á eftirfarandi tilvitnun í bókina, bls. 8: Ljósbjörg Petra Sveinsdótttir lætur sér fátt um finnast. Henni líður vel í hringiðunni, en hún gæti samt hugsað sér að vera ósýnileg þegar henni hentar. Sólarglenna smýgur inn um gluggann og lýsir upp andlit náttúrubarnsins. Lífsreynslan endurspeglast í augunum, svipbrigðin sterk. Hún er sátt við ævistarfið, sem mun lifa mann fram af manni og bera þess vott að ekkert er ómögulegt. Petra fylgdi hugboði sínu, vingaðist við fjöllin, bar virðingu fyrir náttúrunni, og fékk örlítið sýnishorn til varðveislu. Í öllum regnbogans litum.
Bókin er seld í Steinasafni Petru og hefur líka verið í bókabúðum. Allir Austfirðingar ættu að kappkosta að eignast þessa fallegu bók og votta framtaki Petru þar með virðingu sína enda á aðdráttarafl safnsins hennar drjúgan þátt í ferðamannastraumi til Austurlands.

H. Hg.