Skip to main content

.

 

Þegar gæsadrottningin talaði til mín

Í kolniðamyrkri klukkan fimm að morgni sat ég í háu grasi við stórt tún og beið. Það var skítkalt og gult grasið rennblautt og klístrað. Á túninu voru nokkrar gervigæsir sem sáust ekki fyrir myrkri. Veiðifélagi minn sat nokkrum metrum frá, í næstu holu og andvarpaði. Við vorum að bíða eftir gæsinni.

Við höfðum komið okkur fyrir í holóttu móbarði við djúpan skurð. En morgunflug snýst um það að sitja fyrir gæsunum þegar þær koma fljúgandi frá Lagarfljótinu í birtingu. Þær setjast á næsta tún til að fá sér morgunmat. Næturstað halda þær gjarnan á vatni til að vera óhultar fyrir ref og mink og þær éta sand til að bæta meltinguna. Smáskíma var í fjarska.

Við höfðum vaknað klukkan fjögur þessa nótt, ekið langar leiðir út í sveit frá Egilsstöðum, fikrað okkur áfram í kolsvörtu myrkri með tálgæsir í netpoka og dreift þeim á túnið. Núna vorum við tilbúnir, í felulitabúningum, með grímur fyrir andlitinu. Við biðum þolinmóðir og drukkum orkudrykki til að halda okkur vakandi. Birtingin nálgaðist og smábjarmi færðist yfir himininn.

Brátt heyrðist í gæsum í fjarska og við sperrtum eyrun. Ég flautaði með gæsaflautunni, þetta eina kvak sem ég kunni. Fimm gæsir í hóp tóku stefnuna á okkur. En þær voru varar um sig og flugu í hring hátt yfir, skoðuðu gervigæsirnar og leituðu eftir mannafígúrum. Gæsirnar eru varar um sig nú til dags. Oft eru þær með eina reynda forystugæs. Þessar gæsir ákváðu að lenda ekki. Þær hafa sennilega séð smáhreyfingu þegar ég lyfti byssunni eða þær sáu að gervigæsirnar voru plat. Ein þeirra gargaði með aðvörunartóni og í kjölfarið flugu þær burt.

Það hélt áfram að birta og við fórum að sjá glitta í gervigæsirnar. Undir stélinu er grágæsin hvít og á gervigæsunum er þetta málað með skærhvítum lit, nokkurs konar lendingarljós. Sumar gervigæsirnar voru að bíta gras en ein var á vakt. Í raun og veru er mjög auðvelt að sjá að þetta eru gervigæsir því að þær hreyfast ekki og ef þær eru á stöng sést að þær eru holar að innan. Við biðum áfram og heyrðum skot í fjarska.

Þá komu tvær gæsir úr norðri og flugu lágt. Ég blés í flautuna. Þær virtust óvarar um sig og stefndu beint inn til lendingar, sennilega ungar og óreyndar. Rétt áður en þær lentu skaut ég. Önnur gæsin kollsteyptist í túnið. Veiðifélaginn skaut og hitti líka. Sigri hrósandi hoppaði hann upp úr grasinu:

„Já, loksins, já, já, já,“ hrópaði hann og dansaði af gleði.

Honum hafði gengið illa og þetta var hans fyrsta gæs á veiðitímabilinu. Hann hafði náð einni gæs árið áður og hafði því verið einnar gæsarveiðimaður í heilt ár. Hann hafði farið margar veiðiferðir og alltaf komið tómhentur heim. Konan var hætt að spyrja. Ég skildi gleði hans.

Við hlupum af stað. Báðar gæsirnar voru særðar og höfðu náð að skríða spölkorn eftir túninu. Sú sem ég hafði skotið var vængbrotin en lifandi. Ég greip hana og sneri úr hálsliðnum fljótt og öruggt, án þess að hugsa. Maður má ekki horfa í augu þeirra. Þetta var stálpaður ungi.

Félagi minn hljóp á eftir hinni sem ennþá var skríðandi. Loks lagðist hún á magann með vængina útbreidda. Þegar hann kom að gæsinni hikaði hann.

„Stígðu á hausinn á henni,“ kallaði ég og sá að hann hafði guggnað. Ég sá að hann vissi ekkert hvað hann átti að gera við hendurnar. „Ekki hugsa,“ kallaði ég.

Skyndilega hljóp gæsin af stað, baðandi vængjum. Hann hljóp á eftir en með herkjum náði gæsin að koma sér í loftið og straukst við jörðina. Veiðifélaginn hljóp allt hvað hann gat en náði henni ekki. Hún flaug yfir skurð og hvarf upp í móa.

„Eltu hana uppi, hún dettur,“ kallaði ég. „Nei, hún flaug yfir fellið,“ sagði hann lafmóður.

„Hún dettur og hrafnarnir taka hana,“ sagði ég.

Hann blótaði sjálfum sér fyrir linmennskuna.

Ég tók dauðu gæsina, lagði höfuð undir væng og kom henni fyrir meðal gervigæsanna. Síðan skriðum við aftur í holurnar okkar. Veiðifélaginn var ekki hress, kallaði sjálfan sig aumingja, rolu og hugleysingja. Hann nagaði sig í handarbökin. Ennþá var hægt að kalla hann einnar gæsarveiðimann.

Ekki leið á löngu þar til nýr gæsahópur flaug yfir. Við skutum á eftir þeim og tæmdum maga_ sínin án þess að hitta. Við höfðum ekki æft leirdúfuskotfimi nægilega. Svo heyrðum við í gæs sem við sáum hvergi, það var skrýtið. Oft hefur mér komið í hug að til væri ein allsherjar gæsadrottning sem sæi allt og vissi allt. Hún úthlutaði manni gæs þegar maður ætti það skilið.

Hóparnir héldu áfram að koma og það kom hvert flugið á fætur öðru. Stundum sáu þær okkur og hættu við, samt fretuðum við á eftir þeim. Það komu líka gæsir er flugu inn til lendingar en við hittum ekki. Við vorum bara ekki með þetta lengur. Eitthvað hafði komið okkur úr fókus.

Allt í einu tókum við eftir því að það var ein gæs sem var alltaf að hringsóla hátt fyrir ofan okkur, ýmist kvakaði hún eða hún brást í sárt tíst. Svo hvarf hún um stund. En hún kom alltaf aftur, eins og hún væri að leita að einhverju. Hún vissi hvar við vorum og kom aldrei í skotfæri. Við pældum lengi í þessu. Brátt vorum við sammála um að þetta væri gæsin sem slapp og hún væri að leita að maka sínum. Gæsir para sig fyrir lífið. Þau höfðu verið ungt par, stálpaðir gæsaungar, nýlega ástfangin. Hann kallaði stöðugt á sína heittelskuðu sem lá á túninu eins og sofandi. Hans sára tíst skar mig í hjartað. Hann fékk nafnið Siggi litli. Við biðum fram undir hádegi, gáfumst þá upp.

Nokkrum dögum seinna vorum við aftur á gæsaveiðum. Í þetta sinn var það kvöldflug við Selfljótið í Hjaltastaðarþinghá. Nú vorum við þrír veiðimenn og einn hundur sem biðum í rökkrinu. Við biðum undir háu barði, við góða lykkju á fljótinu. Þarna voru gæsirnar vanar að halda næturstað og þetta var gamall og margreyndur veiðistaður. Við vorum búnir að stilla upp gervigæsum í vatnið og á sandrif beint fyrir framan okkur. Aðeins fimm gervigæsum var stillt upp í þetta sinn því að okkur fannst eins og gæsin væri farin að sjá í gegnum þetta gervi. Við heyrðum í gæsum um móana allt í kring. Það heyrðist einnig í jarmandi rollum á túni við fjarlægan bæ og mótorvæl í traktor. Myrkrið skall á.

Ekki komu gæsirnar. Vitrir menn sögðu að gæsin væri búin að breyta um munstur. Áður fyrr fékk maður alltaf tíu gæsir við kvöldflug við Selfljótið en nú komu menn heim með eina eða tvær. Þetta var ferlegt drullusvað. Ég sat neðst í barðinu og stór og þung drulluklessa var undir gönguskónum.

Loks kom hópur sem flaug hátt yfir í oddaflugi. Þær voru búnar að ákveða lendingarstað langt í burtu, þýddi ekkert að blása í flautuna. Þær flugu suður með Selfljótinu og notuðu ána sem siglingamerki.

Hundurinn titraði undir felulitateppi og það var alltaf verið að skamma hann. En hann átti svo erfitt með að vera kyrr þegar hann heyrði í gæsum. Í fjarska heyrðust skotdrunur eins og vélbyssustríð væri í gangi. Yfir Héraðsflóanum iðuðu sægræn norðurljós. Það kom bjarmi á himinhvolfið eins og þar væri stórborg. Ég starði þangað lengi.

Allt í einu heyrði ég gæsagarg úr norðri. En ég sá engan hóp í myrkrinu. Svo heyrði ég einsamla gæs garga eitthvað út í myrkrið í von um að finna hóp. Ég blés allt hvað ég gat í flautuna. Hún kvakaði á móti en ég sá enga gæs. Þá heyrði ég vængjaþyt og frusshljóð þegar hún renndi sér á vatnið. Hún hafði lent á vatninu nokkuð frá. Ég flautaði og hún kvakaði á móti. Hún virtist sjá gervigæsirnar og synti rólega til okkar. Ég sá hvar hún skar spegilsléttan vatnsflötinn.

Um stund var hún þögul og synti í hringi eins og hún væri óörugg. Gæsirnar á sandrifinu hreyfðust ekki, stóðu eins og styttur dauðans. Allt í einu heyrði ég gæsina tísta, alveg eins og unginn hafði gert sem flaug yfir túninu. Mér snarbrá. Var þetta Siggi litli? Unginn tísti aftur og ég þekkti þetta tregatíst. Ég fylltist samúð og hugsaði um mína eigin syni. Unglingar gera oft mistök vegna vankunnáttu.

Nú voru góð ráð dýr. Hér voru þrír veiðimenn og allir miðuðu byssunni á Sigga litla. Við gátum ekki talað saman því að það myndi fæla þessa einu gæs sem hafði komið í skotfæri. Ég vissi að þeir biðu eftir mér því að ég var með þriggja tommu skotin sem drógu lengra.

Siggi litli synti skrykkjótt á fljótinu, hann skildi ekki þennan gæsahóp sem svaraði ekki og hreyfðist ekki. En hann gekk á land á sandrifinu, spölkorn frá gervigæsunum. Hann virtist vera í sínum eigin heimi, baðaði sig í vatninu, teygði úr vængjunum og snyrti sig með goggnum.

Þegar hann dýfði hausnum í vatnið til að fá sér sand notaði ég augnablikið til að lyfta byssunni og miða. Gæsir skynja hverja smáhreyfingu. Þetta var algjörlega óvanur ungi, óreyndur og saklaus. Ég vildi helst ekki skjóta hann. En ég vissi að hinir myndu skjóta á næsta augnabliki.

Ég miðaði vandlega, sá aðeins útlínurnar bera við vatnið. Miðaði aðeins fyrir ofan þar sem höglin myndu falla á þessu langa færi. Fingurinn hikaði á gikknum. Þá hætti ég að hugsa og allt í einu kvað við hávært skotið og ég fann höggið í öxlina. Siggi litli steyptist um koll. Hann var vængbrotinn og skildi ekki hvers vegna eða hvaða hvellur þetta var. Hann reyndi að hefja sig til flugs en vængurinn lafði eins og tuska í vatninu. Hann reyndi að laga brotið með goggnum. Svarti veiðihundurinn stökk af stað en staðnæmdist við vatnsborðið. Það var ekki fyrr en ég kom hlaupandi og Siggi litli sá mannveru að hann gerði sér grein fyrir hvernig í öllu lá. Þá tók hann á rás út á vatnið.

„Sækja,“ sagði ég við hundinn.

Hundurinn stökk út í fljótið og synti á eftir unganum. Siggi litli reyndi allt hvað hann gat. En áður en varði var hundurinn kominn með hann í kjaftinn og synti með hann í land. Ég sneri gæsarungann úr hálsliðnum án þess að hugsa. Mín eigin veiðigræðgi hafði bundið enda á ástarsorg hans.

„Svona á að gera þetta,“ sagði hundeigandinn.

„Vona það standi í þér,“ sagði hinn veiðifélaginn sem var öfundsjúkur.

Sagan er ekki öll. Nokkrum dögum síðar var ég að elda gæsabringu á wok pönnu. Hafði skorið gæsabringuna í strimla til að steikja með grænmeti og hvítlauk. Var einn heima í stóru kanadísku húsi. Rétturinn bragðaðist alveg yndislega. En allt í einu stóð ein kjötræman föst í hálsinum á mér, svo hrottalega að ég náði ekki andanum. Ég reyndi að hósta þessu upp en kjötið hékk á tægju. Reyndi að kyngja en þetta sat pikkfast.

Ég náði ekki andanum og fékk ekkert loft, loft, loft. Ég hljóp inn á klósett en það breytti engu. Rauk aftur inn í eldhús og beygði mig yfir eldhúsvaskinn en það hjálpaði heldur ekki. Ég þeysti fram og aftur um íbúðina án árangurs. Ég náði ekki andanum og þetta var hræðileg tilfinning. Ég var við dauðans dyr og var byrjaður að sjá svarta díla. Siggi litli kom upp í hugann. Svona hafði hann dáið.

Ég opnaði dyrnar út og reyndi að kalla á hjálp en ekkert hljóð kom. Sá ekkert fólk í nærliggjandi húsum, bara nærbuxur á snúrustaur. Augnabliki síðar myndi líða yfir mig og ég hníga niður, slokkna á mér og ég vissi ekkert meir. Jarðarförin yrði í rigningu.

Ég myndi aldrei klára seinna bindið af skáldsögunni minni. Og hver ætti að klára að klippa heimildarmyndina um hreindýrin? Ég myndi aldrei skrifa leikritið um vélstjórann frá Aberdeen þótt ég væri búinn að skaffa öll dómsskjölin. Augnabliki síðar lægi ég á tröppunum við útidyrnar, kaldur og dauður.

En á síðasta augnabliki tókst mér að kyngja þessum bita sem hékk á kjötþræðinum. Ég fékk smáloft og var eins og gamalt, fótstigið orgel. En ég náði andanum.

Í dag er ég mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að lifa lengur. En ekki hef ég jafnað mig andlega. Síðan þetta gerðist hef ég sett kraft í að klára það sem ég er að bauka við því að við lifum öll við dauðans dyr. Ég held að gæsadrottning hafi talað til mín.

Höfundur: Ásgeir Hvítaskáld