Skip to main content

.

 

Útrásarhreinar á 20. og 21. öld

Skraphéðinn G. Þórisson


Hreintarfar í Húseyjarlandi virða höfund fyrir sér, Þerribjörg í baksýn (ljósm. SGÞ).

Hreindýr hafa gengið á Íslandi í tæp 250 ár. Síðan um 1940 hafa þau bara verið á Austurlandi. Fyrst nær eingöngu á öræfunum í nágrenni Snæfells en eftir að þeim fjölgaði þá dreifðust þau um allt Austurland frá Breiðamerkurlóni norður að Melrakkasléttu. Vesturmörk útbreiðslu þeirra eru um Jökulsá á Breiðamerkursandi, Vatnajökul og með Kverká, Kreppu og Jökulsá á Fjöllum til sjávar. Hreindýrin hafa ótrúlega lítið rásað út fyrir þetta svæði en telja verður líklegt að það aukist samfara fjölgun þeirra og útbreiðsluaukningu, sem hefur að mestu verið til norðurs. Hér verða rakin þekkt tilvik á 20. og 21. öld þar sem hreindýr hafa leitað í vestur frá Austurlandi.

1927–1929 Kerlingafjöll

Guðmundur Einarsson frá Miðdal sá fimm og sex hreindýr í tvö skipti á Kili á árunum 1927–1929. Ekki var vitað hvað um þau varð.1 Ekkert er hægt að fullyrða um uppruna þessara dýra. Hvort þarna hafa verið síðustu leifar hjarðarinnar á suðvesturhorninu eða dýrin ættuð úr Mývatnssveit, sem telja verður líklegra. Hugsanlegt er að þau hafi líka komið að austan. Ekkert er þó hægt að fullyrða um það og ekkert er vitað um afdrif þeirra.

„Fyrr á árum“ Silfrastaðir í Skagafirði

Í bókinni Á hreindýraslóðum segir eftirfarandi: „Þannig hafa sumir t.d. fullyrt, að margt hreindýra væri á vissum heiðum á Vestfjörðum og Ströndum, en þangað hafa hreindýr alls eigi komið, svo vitað sé. [Neðanmáls: „Aðeins eina frásögn hef ég heyrt um hreindýr vestan Eyjafjarðarsýslu. Var það tarfur einn, fyrr á árum, sem hélt sig alllengi í fjalli upp af Silfrastöðum í Skagafirði og hvarf þaðan aftur.“]“2

Upp úr 1940 Drangavík á Ströndum

Viktoría Guðmundsdóttir (28.5.1936-25.5.2015), dóttir síðasta ábúanda í Drangavík á Ströndum (fór í eyði 1947), sagði Hauki Jóhannessyni jarðfræðingi frá því þegar hún sá hreindýrstarf er hún sat yfir kvíaám uppi á Drangavalladal í byrjun stríðsins. Sá „nokkuð sem þeim fannst vera grind sem hreyfðist lítillega, svo spratt dýrið upp hornprútt hreindýr og hljóp frá þeim.“3


Hreindýrshópur að kvöldi dags á fengitíma á Fljótsdalsheiði, Fljótsdalsmúlinn í baksýn (ljósm. SGÞ).

1946–1949 Hofsafréttur

Á árunum 1946–1949 sá Björn Egilsson frá Sveinsstöðumí Lýtingsstaðahreppi eitt hreindýr að sumarlagi skammt austan við Illviðrishnjúka, norðaustan við Hofsjökul. Í annað sinn varð hann var við hreindýraslóð í Keldudalsdrögum á Hofsafrétti.4

1948 Grafarlönd

Sumarið 1948 sást lítill hreindýrahópur í Grafarlöndum en engra hreindýra varð vart í göngum um haustið á Mývatnsöræfum.5

1942 Öræfi

Ungur hreintarfur flæktist í Öræfin 1942. Dvaldi hann þar þangað til veturinn 1943–1944 en þá fór hann yfir Skeiðarársand og sást í Fljótshverfi síðla vetrar en hvarf um vorið.6

1950 Öræfi

Um 1950 fundust tvær hauskúpur af ungum hreindýrum við Breiðamerkurjökul og um 1976 hélt eitt hreindýr sig á milli Stemmu og Jökulsár á Breiðamerkursandi.7 Nú eru reyndar útbreiðslumörk hreindýranna skilgreind við Jökulsána.

1980–1993 Mývatnsöræfi

Þröstur Eysteinsson talaði við föður sinn, Eystein Tryggvason, þann 14. mars 2003. Hann sagði að Graddabunga væri kennd við hreindýr enda hefðu Þingeyingar kallað hreintarfa gradda. Eysteinn Tryggvason sagðist hafa séð spor eftir hreindýr norðan við Dyngjufjöll um 1993. Hjörtur bróðir hans sá hreindýrsspor sunnan við Herðubreið á 9. áratug síðustu aldar.8

2004 Vatnsfell

„Á þriðjudaginn sáust tveir hreindýrstarfar í nágrenni Hálendismiðstöðvarinnar. Virtust þeir fremur spakir eða kannski voru þeir sárfættir eftir að hafa skokkað um langan veg. Um helgina voru fjallmenn á Holtamannaafrétti, í seinni leitum og fóru þar vítt og breitt um, m.a. í Nýjadal og Vonarskarð en urðu þessara dýra eða spora eftir þau ekki varir. Þau virðast því vera nýkomin á svæðið. Við leggjum til að þið, ágætu fjallafarar, takið þessi dýr í fóstur og látið ykkur annt um þau, farið ekki nær þeim en svo að þau verði ykkar ekki vör og ekki komi styggð að þeim. Það væri sannarlega svona í framhaldinu gaman að sækja eins og eina til tvær kýr og koma þarna upp stofni. En ekki eru víst allir sammála þeirri málsmeðferð, þar sem nú eru tvö ráðuneyti, landbúnaðar- og umhverfis-, komin í málið ásamt nokkrum nefndum og stofnunum ríkisins. Við látum ykkur fylgjast með framvindu málsins hér á heimasíðunni en ég endurtek: Tökum þessi dýr í fóstur. Þau hafa unnið fyrir lífgjöfinni. Látum í okkur heyra!! Skrifið ykkar álit gjarnan í gestabókina hér á síðunni.“9

„Þriðjudaginn 5. október [2004] bárust lögreglunni tilkynningar frá nokkrum aðilum um tvö hreindýr á svæðinu við Vatnsfell og í framhaldinu var haft samband við Umhverfisstofnun varðandi framhaldsafgreiðslu á þessu máli. Miðvikudaginn 6. október kl. 14:20 fór lögreglumaður ásamt fulltrúa sýslumannsembættisins áleiðis upp á hálendið til að staðsetja dýrin og fundust þau við svonefndar Ósöldur, 7–10 km ofan við Vatnsfell og var fylgst með þeim fram eftir degi á meðan veiðimaður var á leið á svæðið til að fella dýrin. Áður en veiðimaðurinn kom á staðinn tóku dýrin á rás og hurfu sjónum og fundust ekki aftur þrátt fyrir leit á svæðinu fram í myrkur. Næstu þrjá daga var hreindýranna leitað á stóru svæði sem náði norður undir Nýjadal en án árangurs. Þegar þetta er ritað hefur engin vísbending varðandi dýrin borist lögreglu.“10

Hringt var í Svein, lögreglumann á Hvolsvelli, 6. nóvember 2015 en hann fór í þennan leiðangur. Hann sagði að þeir hefðu séð dýrin úr þyrlu en hún fældi þau. Taldi annað dýrið hafa verið fullorðinn tarf en sá hitt ekki nógu vel. Ekki er hægt að sjá á myndum á heimasíðu Hálendismiðstöðvarinnar hvort fullyrðingin um að þarna hafi tveir tarfar verið á ferðinni sé rétt.

2007 Arnarvatnsheiði

„Hreindýrskýr með kálf hefur sést á ferð um Arnarvatnsheiði. Heimildarmenn Skessuhorns telja að ekki hafi áður sést hreindýr á þessum slóðum. Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvort skert búsetusvæði fyrir austan vegna framkvæmda þar hafi orðið til þess að kýrin leitaði svo vestarlega en það eru einungis getgátur. Snorri Jóhannesson bóndi á Augastöðum sagði í samtali við Skessuhorn að hann gæti staðfest það að sést hefði til kýrinnar með kálfinn. Hann mundi hins vegar engar frekari upplýsingar gefa um staðsetningu dýranna, það yrði til þess að menn færu í að fella þau. „Tvö síðustu ár hafa menn reynt að fella svona flökkudýr með ærnum tilkostnaði, norðan við Hofsjökul í fyrra og við Þórisvatn í hittifyrra. Mér finnst þetta auka á líffræðilegan fjölbreytileika svæðisins og mun ekki gefa frekari upplýsingar um dýrin nema úr þessu verði lögreglumál.““11

Haft var samband við Snorra Jóhannsson (3. ágúst 2007) til að fá nánari upplýsingar. Fyrstir til að sjá dýrin voru tveir franskir herramenn sem voru í náttúruskoðun á Arnarvatnsheiði í júlí. Grandvar Íslendingur sá svo dýrin seinna. Snorri sagðist hafa heyrt orðróm um að gæsaskyttur hefðu séð tvö dýr norðan Hofsjökuls í fyrra. Velti því fyrir sér hvort þar hefðu verið tarfur og kýr og hún svo leitað vestar. Tarfarnir vestan Vatnajökuls 2004 hafi kannski líka verið kýr og tarfur og sömu dýrin og fyrr eru nefnd.

Rætt var við Halldór Runólfsson yfirdýralækni í ríkisútvarpinu 7. ágúst 2007 sem sagði ekki ástæðu til að fella dýrin á Arnarvatnsheiðinni enda ekki mikil hætta á að eitt dýr á Arnarvatnsheiði bæri smit á milli svæða.

2006 Hreindýrstarfur á Mývatnsöræfum

Einn tarfur sást á hlaupum á afrétt Mývetninga en fannst síðan ekki er að honum var leitað. Sumir tengdu hann við dauðan tarf sem fannst í Hálslóni en ekkert styður þá tengingu. Sú skoðun heyrðist að hann hefði drukknað sem telja verður afar ólíklegt þar sem hreindýrin eru mjög góð sunddýr.


Kálfshræ á Köldukvíslarjökli í 1300 m hæð þann 11. september 2010 (ljósm. Hrafnhildur G. Sigurðardóttir).

2010 Hreindýrskálfshræ á Köldukvíslarjökli

Kristni H. Skarphéðinssyni á Náttúrufræðistofnun Íslands barst bréf frá Hauki Eggertssyni þar sem sagt var frá hræi af hreinkálfi sem hann og ferðafélagar hans fundu á Köldukvíslarjökli í 1.300 m hæð þann 11. september 2010. Í framhaldi af því fékk náttúrustofan nánari upplýsingar og myndir af fundinum frá Hrafnhildi G. Sigurðardóttur. Mín „niðurstaða“ er sú að þarna sé kominn kálfur kýrinnar af Arnarvatnsheiðinni sem fyrr er nefnd og ef það er rétt þá hefur hann drepist þarna haustið 2007 og þá búinn að liggja í þrjú ár á jöklinum.


„Hér er mynd af trakkinu á Bárðarbungu þar sem við gengum fram á ætlað hreindýr. Það var á að giska rúmlega hálfa leið upp á jöklinum, þar sem trökkin fara aðeins í sundur rétt fyrir neðan þar sem merkt er „línaBardarbunga“. Hrafnhildur G. Sigurðardóttir.

2010 Krepputunga

Tarfur sást á hlaupum í Krepputungu 2010 (Elísabet Kristjánsdóttir í Möðrudal) og í október sama ár rakst Þórhallur Þorsteinsson á hreindýraslóð innan við Kreppubrú og lá hún inn og vestur.12


Mynd tekin í flugi náttúrustofunnar 22. maí 2014 vestan Kreppu, sunnan Lónshnjúks (ljósm. Rán Þórarinsdóttir).

2012 Mellönd

Haustið 2012 nefnir Daði Lange Friðriksson að frést hefði af slóðum vestan við Jökulsá á Fjöllum „… í og við Glæðuás eða sunnan við Glæður (syðst í Mellöndum).“13 Samkvæmt frásögn Vilhjálms Vernharðssonar í Möðrudal hljóp tarfurinn í Mellöndum inn veg og var í Herðubreiðarlindum 6. október 2012.14


Hreintarfur 5. október 2012 á Melrakkasléttu (ljósm. Daði Lange Friðriksson).

2012 Melrakkaslétta

Þann 5. október sá Daði Lange Friðriksson hreintarf á Melrakkasléttu „rétt vestan við Raufarhafnarafleggjarann í Hólaheiðinni, norðan við veg.“15 Þetta var á fengitíma en þá hlaupa tarfar oft langar leiðir í leit að kúm.

2014 Hvannalindir

Í lok júlí 2014 fann Halla Ólafsdóttir, landvörður í Hvannalindum, slóð eftir hreinkú og kálf við Krikatjörn og um kvöldið sá hún dýrin við rústirnar. Að öllum líkindum var það sama kýrin sem sást í flugi náttúrustofunnar 22. maí og þá var hún vestan Kreppu, sunnan Lónshnjúks og elti hana kálfur (10. mynd). Halla skírði kúna Anastasíu Hvönn og kálfinn Blæ.


18. október 2015. Haustkálfur í Hólmatungum (ljósm. Berglind H. Helgadóttir).

2015 Hólmatungur

Þann 18. október 2015 myndaði Berglind H. Helgadóttir stakan kálf í Hólmatungum.16 Ferðamenn rákust síðan á hann nærri Dettifossi þann 26. október og vakti hann mikla lukku samkvæmt upplýsingum á feisbók en þar segir leiðsögumaður að farþegar hans hafi froðufellt af gleði er þeir sáu kálfinn. Ekkert spurðist til hans eftir það. Lokaorð Á fyrsta áratug þessarar aldar tvöfaldaðist hreindýrastofninn á Austurlandi, fór úr 3.000 í um 6.000 dýr. Samhliða fjölguninni dreifðust dýrin um Norðausturland. Sunnan Vatnajökuls er ekki talið æskilegt að hreindýrin fari vestur fyrir Jökulsá á Breiðamerkursandi enda Öræfin ósýkt varnarsvæði þar sem margir sækja sér líflömb. Ekki er eins mikið í húfi norðan jökuls þar sem Skjálfandahólf liggur samsíða Jökulsá á Fjöllum. Skútustaðahreppur, Engidalur og Lundarbrekka og bæir þar fyrir sunnan eru á ósýktu svæði en önnur svæði í hólfinu eru sýkt.18 Eins og sést á þessari samantekt má telja furðu fá tilvik þar sem hreindýrin leita út úr hefðbundnum hreindýrahögum á Austurlandi. Nokkuð ljóst er þó að ef dýrunum heldur áfram að fjölga muni bera meira á „útrásarhreinum“ í framtíðinni.


Kort yfir staði þar sem hreindýr hafa sést utan heimkynna sinna síðustu hundrað árin.17

Tilvísanir

1. Helgi Valtýsson 1945. Á hreindýraslóðum. Bókaútgáfan Norðri hf., Akureyri.

2. Helgi Valtýsson 1945. Á hreindýraslóðum. Bókaútgáfan Norðri hf., Akureyri. bls. 223.

3. Kristinn H. Skarphéðinsson, tölvup. 26.8.2012 og símtal við Hauk Jóhannesson 11.3.2016.

4. Jón R. Hjálmarsson 1987. Fjögur sumur á fjöllum. Selfoss, Suðurlandsútgáfan.

5. Anonymus (ritstj. Sigurður Helgason) 1949. Hreindýr í Grafarlöndum. Dýraverndarinn 35 (1), bls. 8.

6. Helgi Valtýsson 1945. Á hreindýraslóðum. Bókaútgáfan Norðri hf., Akureyri.

7. Hálfdán Björnsson, munnl. uppl.

8. Þröstur Eysteinsson munnl. uppl., 14. mars 2003.

9. Hrauneyjar.is október 2004.

10. Lögregluvefurinn (http://www.logreglan.is/subqa.asp?cat_id=122&module_id=220&element_id=5215).

11. Skessuhorn, 3. ágúst 2007.

12. Þórhallur Þorsteinsson munnl. uppl., 21. október 2010.

13. Daði Lange Friðriksson, tölvubréf dags. 8. október 2012.

14. Vilhjálmur Vernharðsson í Möðrudal, símtal 9. október 2012.

15. Daði L. Friðriksson, uppl. í tölvupósti 5. október 2012.

16. Daði L. Friðriksson, uppl. í tölvupósti 2012.

17. Landmælingar Íslands (2013). Leyfi, samkvæmt 31. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og lögum um landmælingar og grunnkortagerð nr. 103/2006, fyrir gjaldfrjáls gögn frá Landmælingum Íslands. Skoðað í desember 2015 á http://www.lmi.is/wp-content/uploads/2013/10/ Almskilm.pdf. Landmælingar Íslands (2015). Gjaldfrjáls vektor gögn IS50v 4.1 - 24122013 útgáfa. Sótt í desember 2015 á niðurhalssíðu LMÍ: http://atlas.lmi.is/LmiData/index.php

18. http://mast.is/dyraheilbrigdi/smitvarnir/vanarholf/#varnarholf, febrúar 2016.