Skip to main content

.

 

Sullaveiki á 16. öld

Steinunn KristsjánsdóttirSteinunn Kristjánsdóttir

Sullaveiki (e. hydatid disease) herjaði á Íslendinga öldum saman og varð einn af mannskæðustu sjúkdómum hérlendis um langa hríð. Það var ekki fyrr en uppúr miðri síðustu öld sem sértækar aðgerðir til varnar veikinni báru árangur. Frá því að fornleifauppgröftur hófst á rústum Skriðuklausturs árið 2002 hafa samtals átta tilfelli veikinnar fundist í gröfum úr kirkjugarði þess. Í einni þeirra fannst sullblaðra sem mældist yfir 17 cm í þvermál og er hún sú stærsta sem grafin hefur verið upp hérlendis. Í greininni verður fjallað um þessar grafir á Skriðuklaustri og farið stuttlega yfir sögu sullaveikinnar hérlendis. Fyrst verður þó dregin fram mynd af byggingum og starfsemi klaustursins sjálfs miðað við fyrirliggjandi niðurstöður uppgraftarins.

Sullaveiki

Um byggingu og starfsemi Skriðuklausturs.

Skriðuklaustur var stofnað árið 1493 og rekið samkvæmt reglu heilags Ágústínusar til siðbreytingarinnar um miðja 16. öld. Eftir siðbreytinguna var Skriðuklausturskirkja gerð að annexíu frá Valþjófsstað í Fljótsdal og Ási í Fellum. Eftir það var hún eingöngu nýtt af sýslumönnum og fjölskyldum þeirra sem bjuggu á Skriðuklaustri eftir að klausturlifnaður lagðist af þar. Kirkjan var síðan afhelguð árið 1793.

Vitneskja um rekstur spítala á Skriðuklaustri í Fljótsdal var ekki fyrir hendi fyrr en fornleifauppgröftur hófst á rústum þess. Leifar lækningaplantna og læknisáhalda vitna um að jafnt lyf- og handlækningar hafi farið fram á staðnum. Skýr einkenni langvinnra sjúkdóma á beinagrindum úr gröfum í klausturgarðinum sýna jafnframt að fólk hafi leitað aðstoðar þar en klaustur voru skyldug að greftra þá sem dóu í þeirra umsjá. Er þetta elsti spítali sem grafinn hefur verið upp hérlendis en sambærilegar stofnanir hafa verið grafnar upp í nágrannalöndum Íslands, til dæmis í Æbelholt á Jótlandi.

Um 1100 fermetrar af rústum Skriðuklausturs hafa verið grafnir upp og 157 grafir opnaðar. Klausturhúsaþyrpingin skírskotar beint til þeirra daglegu starfa sem einkenndi líf Ágústínusarbræðra á alþjóðavísu. Það snérist um tilbeiðslu, garðyrkju, svefn og mat, auk öflunar fjár til reksturs stofnunarinnar og þjónustu við þá sem þangað sóttu andlega eða líkamlega líkn. Þorri þeirra beinagrinda sem grafnar hafa verið upp frá klausturtíma bera þess vegna einkenni langvinnra sjúkdóma, sýkinga, meðfæddra kvilla eða áverka vegna slysa. Þessi einkenni eru einkum til komin vegna sulls, sárasóttar, berkla, lungnabólgu, tannslits, hörgulsjúkdóma á borð við beinkröm og skyrbjúg, skarðs í góm, síendurtekins álags og almennra beinbrota.

Af þeim rýmum sem grafin hafa verið upp innan húsaþyrpingarinnar á Skriðuklaustri er helst að nefna svefnskála, næturtröppu, kapítula, matsal, eldhús, sjúkrasal, skepnuhús og geymslur auk kirkju. Innan klaustursins þreifst síðan samfélag þeirra sem kusu líf og dauða undir verndarvæng reglubræðranna í umboði almættisins. Þar bjuggu, auk reglubræðra, sjúkir og fátækir á öllum aldri og báðum kynjum í lengri eða skemmri tíma. Bræðurnir áttu sjálfsagt leg í kirkjugarði eigin klausturs en þeim bar, eins og fyrr frá greinir, að greftra þá sem dóu í þeirra umsjón sem sjúklingar eða gestir. Almenningur, sem annars átti alla jafna rétt á greftrun í eigin sóknarkirkjugarði, gat hins vegar líkt og sérstakir velgjörðarmenn þeirra keypt sér leg við klaustrin, án þess að ganga í þau.

Þrátt fyrir að klaustrið á Skriðu hafi aðeins verið rekið í 60 ár, af þeim tæplega 300 árum sem kirkjugarðurinn var í notkun, er ljóst að talsvert fleiri voru jarðaðir þar á klausturtíma en eftir hann. Af 157 varðveittum beinagrindum eru 117 frá klausturtíma en aðeins 40 frá því tímaskeiði er sýslumenn sátu á Skriðu. Samsetning grafa frá klausturtíma bendir jafnframt til þess að um 70 manns hafi leitað á náðir klaustursins og dáið þar vegna sjúkdóma sinna. Bræðurnir hafa því að jafnaði tekið á móti einum sjúklingi á ári, sé miðað við 60 ára rekstrartíma klaustursins. Allt að 47 einstaklingar hafa hins vegar aflað sér réttar með öðrum hætti til þess að öðlast greftrun í kirkjugarðinum, sem reglubræður, almenningur eða velgjörðamenn. Sýslumenn, svo og fjölskyldur þeirra voru eftir klausturtíma jörðuð á sama stað og bræðurnir, að baki kirkjukórsins.

Þeir sjúklingar sem nutu hjálpar bræðranna á Skriðuklaustri höfðust að líkindum við í sjúkrasalnum. Hann var stærstur rýma í klausturhúsaþyrpingunni, um 30 fermetrar að grunnfleti. Kallaðist salurinn infirmarium á latínu og sá sem sá um sjúklingana bar heitið infirmarius. Hann var einn bræðranna. Þessi aðili sá einnig um að undirbúa lík fyrir greftrun í kirkjugarðinum. Í sjúkrasalnum voru hinir sjúku baðaðir, þeim gefinn matur og veitt sú læknisaðstoð sem í boði var, til dæmis í formi bæna, lyfja úr jurtum, blóðtöku og jafnvel aðgerða. Einnig bjuggu þeir um sár ef svo bar undir. Til aðstoðar bræðrum í munkaklaustrum voru venjulega eldri konur sem kusu að leggja sitt af mörkum við hjúkrun þeirra sem þurftu þess, gegn tryggri sáluvist á himni. Þrjár eldri konur, sem ekki bera sérstök einkenni alvarlegra sjúkdóma, voru einmitt jarðaðar í næturtröppu klaustursins en það er sú bygging sem tengir klausturhús við klausturkirkjuna. Vera má að þar liggi aðstoðarkonur bræðranna en staðsetning legstæða þeirra bendir til æðri stöðu þeirra en annarra kvenna sem jarðaðar voru í kirkjugarðinum sjálfum.

Sullaveiki

Samkvæmt rannsóknum Karls Skírnissonar, Sigurðar Richter og Matthíasar Eydal hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum varð sullaveiki að landlægum faraldri hérlendis eftir að innflutningur á hundum frá Þýskalandi til Íslands hófst um 1200, þótt veikin hafi verið þekkt á Íslandi allt frá landnámi. Stóð faraldurinn fram á 20. öld, þar til stjórnvöldum tókst loks að ná tökum á veikinni með víðtækum sóttvarnaraðgerðum sem stóðu í um hálfa öld.

Vilmundur Jónsson, sem var landlæknir tímabilið 1931–1959, benti á að ekki hafi verið vitað með vissu hversu útbreidd sullaveikin var, né heldur hverjar orsakir hennar voru, fyrr en með rannsóknum Jóns Finsens og Harald Krabbe uppúr miðri 19. öld. Gátu þeir um leið greint eðli og smitleiðir veikinnar. Þeir uppgötvuðu að bandormur, sem lifir í þörmum hunda, verpir eggjum sem auðveldlega berast til manna og annarra dýra, eins og sauðfjár og nautgripa, við hvers konar snertingu. Þegar eggin verða að bandormum bora þeir sér leið í gegnum þarmana og setjast að í einhverju líffæri líkamans. Þar mynda þeir blöðru sem kallaður er sullur og veikin er nefnd eftir. Gangi sjúklingurinn lengi með bandorminn í sér getur sullblaðran orðið æði stór. Krabbe og Finsen greindu til dæmis í rannsókn sinni frá 66 ára karlmanni sem hafði gengið með sullinn í 30 ár. Tæmdu þeir 44 potta af vökva og bandormum úr kviðarholi hans.

Nær allir hundar sem Finsen og Krabbe skoðuðu voru með bandorma og um þriðjungur þeirra með þá tegund sem mönnum stafaði mest hætta af. Þeir áttuðu sig fljótlega á því að orsakir hinnar miklu útbreiðslu lægju í lifnaðar- og búskaparháttum landsmanna og hinu nána sambandi manna og hunda, án þess að nægilegs hreinlætis væri gætt. Nóg var að hundar sleiktu matarílát fólks eða að innyfli sauðfjár væru handfjötluð.

Þegar þekking á orsökum og hegðun lá fyrir var fyrst hafist handa við að sporna við veikinni. Fólust viðbrögðin einkum í aukinni upplýsingagjöf, fækkun hunda, markvissri hreinsun þeirra, sértækum aðgerðum við slátrun búfjár og síðar lyfjagjöf. Seinlega gekk samt hjá stjórnvöldum að sannfæra landsmenn og fá þá til þess að taka þátt í aðgerðunum. Guðmundur Magnússon læknir sagði í grein sinni, sem birt var í Árbók Háskólans árið 1913, að Ísland væri eitt versta sullaveikibælið á norðurhveli jarðar, svo útbreidd var sullaveikin á þeim tíma. Settar voru upp hundahreinsunarstöðvar víða á sveitabæjum landsins um miðja öldina og að lokum tókst nánast að útrýma veikinni, þó hún sé enn þekkt. Í dag uppgötvast sullurinn einkum þegar sjúklingar gangast undir aðgerðir við öðrum kvillum, þó það sé afar sjaldgæft. Fimm slík tilfelli greindust á níunda áratug 20. aldar hérlendis, samkvæmt umfjöllun í Morgunblaðinu árið 1989, en seinasta dauðsfallið af völdum sullaveiki hérlendis varð hins vegar árið 1964.

Leifar eftir sullaveiki

Blaðran, sem sullormurinn býr til eftir að hann flyst frá hundum til manna og annarra dýra, kalkgerist með tímanum í jarðveginum og varðveitist því ekki síður en beinin sjálf. Þess vegna hafa merki um sullaveikina fundist við fornleifarannsóknir. Sem fyrr segir hafa átta slík tilfelli af sullaveiki verið greind á Skriðuklaustri til þessa. Sjö af þeim fundust í gröfum einstaklinga sem voru jarðaðir saman norðan við næturtröppuna. Leifar sullaveikiblaðra hafa aðeins einu sinni greinst áður við fornleifauppgröft hérlendis. Það var í gröf fullorðinnar konu í kirkjugarðinum í Viðey og er hún talin vera frá 18. eða 19. öld, samkvæmt niðurstöðum Hildar Gestsdóttur mannabeinafræðings.

Kalkgerðu sullblöðrurnar sem fundust á Skriðuklaustri líktust einna helst mismunandi stórum fuglseggjum. Í sumum gröfum voru fleiri en ein blaðra en sú stærsta mældist um 17 cm í þvermál. Bendir það til að einstaklingurinn sem var kona hafi borið sullinn í sér í tölvuverðan tíma áður en hún lést. Blaðran var svo stór að hryggjarliðir höfðu bognað. Ekki hefur svo stór sullblaðra fundist nokkurs staðar áður hérlendis við fornleifarannsóknir. Sullurinn hafði í þessu tilviki sest að í lifur konunnar en auk þessa var hún með sárasótt.

Allir einstaklingarnir átta, sem gengið höfðu með sullaveikibandorma í líffærum sínum og borið beinin á Skriðuklaustri, voru 50 ára og eldri. Fjórir af þeim voru konur, þrír voru karlar en ekki var hægt að greina kyn eins einstaklingsins. Blöðrurnar voru mismunandi margar í hverri gröf og mældust allt frá 2 cm í 17 cm, líkt og fyrr frá greinir. Þær voru sex talsins þar sem þær voru flestar en ein þar sem þær voru fæstar.

Helmingur sullaveiku einstaklinganna á Skriðuklaustri hafði gengið samhliða með aðra misalvarlega sjúkdóma. Tvær af konunum voru einnig með sárasótt, ein með berkla og einn karlanna hafði þjáðst af víðtækri sýkingu sem ekki hefur tekist að skilgreina. Ekki er því að fullu ljóst hvaða sjúkdómur dró þá endanlega til dauða, enda getur um samspil margra sjúkdóma verið að ræða í hverju tilviki fyrir sig. Sjúkdómurinn veldur oft heilsuleysi vegna þess að bandormurinn tekur næringu frá hýsli sínum. Sullblaðran þrýstir einnig oft á mikilvæg líffæri, auk þess sem bandormurinn veldur sjálfur verulegum skemmdum þar sem hann sest að.

Gera má ráð fyrir að þeir einstaklingar, sem leituðu til Skriðuklausturs vegna sulls, hafi búið við veruleg óþægindi í nokkurn tíma. Í það minnsta kusu þeir að leita sér ásjár hjá bræðrunum á Skriðu, að líkindum í von um aðstoð. Þar hafa þeir getað notið lækninga og umönnunar af því tagi sem í boði var hérlendis á miðöldum, þó orsakir sullaveikinnar hafi þá ekki verið þekktar. Það að allflestir sullaveiku einstaklingarnir hafi verið jarðaðir saman, bendir engu að síður til þess að skilgreining veikinnar sem sérstaks sjúkdóms hafi verið fyrir hendi á þessum tíma.

Lokaorð

Miðaldaklaustrin ráku gjarnan spítala, líkt og þann sem rekinn var á Skriðuklaustri á fyrri hluta 16. aldar. Aðferðir við hjúkrun og lækningar voru ekki margar eða flóknar, enda má sjá á beinagrindum úr kirkjugarðinum þar að einföldustu sýkingar, sem auðveldlega má lækna í dag, hafa dregið fólk til dauða. Sjálfsagt hefur verið stuðst við andlega tilbeiðslu samhliða líkamlegri líkn, enda lék trúin á æðri mátt stórt hlutverk í læknisstarfsemi miðalda. Ekki hefur enn verið lokið við uppgröft á Skriðuklaustri, svo vel kann að vera að fleiri tilfelli af sullaveiki eigi eftir að koma í ljós svo útbreiddur var sjúkdómurinn.


Heimildaskrá:

 1. Annette Frölich (óútg.). Skriðuklaustur – surgical artefacts. [Skýrsla]. Kaupmannahöfn: höfundur.
 2. Gilchrist, R. og Sloane, B. (2005). Requiem. The Medieval Monastic Cemetery in Britain. London: Museum of London Archaeological Service.
 3. Guðmundur Magnússon (1913). Yfirlit yfir sögu sullaveikinnar á Íslandi. Árbók Háskóla Íslands 1912-1913, bls. 1-83.
 4. Guðmundur Helgi Þórðarson (2005). Sullaveikivarnir í Stykkishólmshéraði 1962-63. Læknablaðið 2005/91, bls. 872-873.
 5. Heimir Steinsson (1965). Munklífi að Skriðu. Háskóli Íslands: Ritgerð til embættisprófs í guðfræði.
 6. Hildur Gestsdóttir (2004). The Palaeopathology of Iceland. Preliminary report 2003. Haffjarðarey, Neðranes & Viðey. FS225-99192. Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands.
 7. Jón Ólafur Ísberg (2005). Líf og lækningar: Íslensk heilbrigðissaga. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
 8. Karl Skírnisson, Sigurður H. Richter og Matthías Eydal (2003). Prevalence of human parasites in Iceland. Í Hanna Akuffo, Ewert Linder, Inger Ljungström & Mads Wahlgren (ritstj.), Parasites of the Colder Climates, bls. 34-44. New York: Taylor & Francis.
 9. Mays, S., Crane-Kramer, G. og Bayliss, A. (2008). Two Probable Cases of Treponarid Disease of Medieval Date from England. Americal Journal of Physical Anthropology 120, 133-143.
 10. Miller, P. og Saxby, D. (2007). The Augustinian priory of St. Mary Merton, Surrey. Excavations in 1976-90. MoLAS Monograph 34. London: Museum of London Archaeology Service.
 11. Møller-Christensen, V. (1982). Æbelholt kloster. Fyrst gefin út árið 1958. Kaupmannahöfn: Nationalmuseet.
 12. Prestatal og prófasta á Íslandi (1950). 2. útg. með viðaukum og breytingum eftir Hannes Þorsteinsson. Björn Magnússon sá um útgáfuna og jók við. Sveinn Níelsson tók fyrst saman og gaf út árið 1869. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
 13. Samson B. Harðarson (2008). Klausturgarðar á Íslandi. Í Hrafnkell Lárusson og Steinunn Kristjánsdóttir (ritstj.), Skriðuklaustur – evrópskt miðaldaklaustur í Fljótsdal, bls. 101-112. Skriðuklaustur: Gunnarsstofnun.
 14. Steinunn Kristjánsdóttir (2008). Skriðuklaustur Monastery – Medical Centre of Medieval East Iceland. Acta Archaeologica 79, 208-215.
 15. Steinunn Kristjánsdóttir og Cecilia Collins (2010). Cases of Hydatid Disease in Medieval Iceland. International Journal of Osteoarchaeology. DOI: 10.1002/oa.1155.
 16. Vilborg Auður Ísleifsdóttir (2008). Samfélagshlutverk Skriðuklausturs. Í Hrafnkell Lárusson og Steinunn Kristjánsdóttir (ritstj.), Skriðuklaustur, evrópskt miðaldaklaustur í Fljótsdal, bls. 51-62. Skriðuklaustur: Gunnarsstofnun.
 17. Vilmundur Jónsson (1954). Sullaveikirannsóknir Jóns Finsens og Haralds Krabbe. Skírnir CXXVII, bls. 134-175.