Skip to main content

.

 

Grásteinn á Svínadal

Myndir og texti: Árni Páll Ragnarsson

Upp af bænum á Reyðarfirði eru fjöllin Kollur og Teigagerðistindur. Milli þeirra liggur Svínadalur og þar er Grásteinn, um tvo kílómetra frá bænum. Steinninn er gríðarstór, ummálið við jarðvegsborð er 26 metrar og hæðin um fjórir til fimm metrar. Hann er því áberandi í umhverfinu á utanverðum Svínadal. Grásteinn er niður af Innri-Kistulæk, í framburðarurð. Væntanlega hefur hann einhvern tíma húrrað ofan úr Kistu, sem svo heitir í fjallinu fyrir ofan. Nú er urðin vel gróin og greinilega lítill framburður í læknum.

Grásteinn á Svínadal

Á Svínadal, alveg innað Grásteini, gengu kýr útbæinga á Reyðarfirði í þann tíð þegar flest heimili höfðu eigin kú. Steinninn gegndi þá hlutverki staðsetningarpunkts, eins og svo mörg örnefni sem nú eru að gleymast. Miðaldra og eldri útbæingar á Reyðarfirði eiga flestir minningar tengdar kúarekstri á þessum slóðum. Að sögn eins kúasmalans þá var þeim bannað að vera með læti við Grástein eða að henda eða róta til steinum þar nálægt.

Grásteinn á Svínadal