Skip to main content

.

 

Frá sögu til samtíðar - Ágústa Þorkelsdóttir

Ágúst ÞorkelsdóttirÁgúst Þorkelsdóttir

Glettingur hefur á liðnum árum flutt okkur efni sem fræðir okkur um sögu, atvinnulíf fyrri tíma og menningarefni sem flokkast undir þjóðlegan fróðleik. Náttúran hefur fengið sinn skerf. Einnig hefur Glettingur birt efni sem snertir samtímann og má í því efni benda á Kárahnjúkablaðið. En betur má ef duga skal. Við verðum að snúa okkur að samtímanum og unga fólkinu. Eins og sjá má á þessu tímaritshefti hefur ritstjóra ekki tekist að snúa við blaðinu. Það er alltaf auðveldara að benda á það sem miður fer en að laga það sjálfur.

Ástæða þess að samtíðin og unga fólkið er mér svo hugleikið, er að með því að segja aldrei frá því sem jákvætt og áhugavert er fyrir þann aldurshóp hér eystra stuðlum við óviljandi að því að eyða byggðunum okkar af frísku og dugandi fólki sem flytur suður þar sem allt virðist vera að gerast, enda mest um það talað og skrifað í fjölmiðlum sem unga fólkið gluggar í. Ef skortur er á skemmtilegum góðum fordæmum leitar fólkið í burtu þar sem fordæmin eru mörg (ekki öll góð) og vel auglýst.

Þótt ég og mínir jafnaldrar geti með gleði lesið 10-12 síðna greinar skráðar í þurrum fortíðarstíl, gerir tölvufólkið það ekki, það flettir aftast og leitar að úrdrætti. Getur Glettingur t.d. ekki flutt okkur ritgerðir eftir ungt fólk sem stefnir að stúdentsprófi frá framhaldsskólunum okkar? Það gæti verið gaman fyrir okkur eldri lesendur Glettings að tengjast á þann hátt þankagangi ungra Austfirðinga.

Náttúrufræðiþekking virðist á undanhaldi. Það er merkilegt, þar sem gönguferðir eru í tísku og mun skemmtilegra að ganga um náttúruna og þekkja nöfn á þeim jurtum sem á vegi verða, jarðmyndunum sem blasa við, steinum sem í götu liggja, skordýrum og fuglum sem gleðja augu og eyru. Gönguferðalangar geta notað Gletting til að fræðast af og finna áhugaverðar gönguleiðir. Í þessu hefti er bent á leiðina milli Vopnafjarðar og Bakkafjarðar og fágæta jurt sem þar finnst, einnig stutta en merkilega leið að Þuríðarárgili sem geymir steingervinga frá kvartier og þjóðsögu, auk fegurðar landslagsins. Stutt gönguferð af þjóðvegi upp með Sunnudalsá er líka spennandi með sögu Sunnudalsþings úr Vopnfirðingasögu í farteskinu. Kláfferjan sem líst er í þessu hefti og gömul eyðibýli verða öllu göngufólki til ánægju.

Stöndum þétt saman um austfirsk málefni og austfirskar byggðir með því að opna öllum leið að því menningarefni sem í boði er og með því auka fjölbreytni Glettings og auka ánægju við lestur.