Skip to main content

.

 

Viðtalið: Ef ég stranda held ég ótrauður áfram

Tryggvi Ólafsson listmálari í viðtali við Magnús Stefánsson

Miklu áræði og trú á sjálfan sig hefur allslaus, liðlega tvítugur maður búið yfir þegar hann rífur sig upp á haustdögum 1961 og siglir til Kaupmannahafnar til að fullnuma sig í málaralist – staðráðinn í að gera listina að ævistarfi sínu. Vissulega var á brattan að sækja á námsárunum og lengur – en listamaðurinn ungi og lífsförunautur hans, Gerður Sigurðardóttir, fylgdust að í gegnum alla erfiðleika og þar kom að Tryggvi Ólafsson frá Norðfirði hlaut viðurkenningu fyrir list sína, bæði hér á landi, í Danmörku og reyndar víðar um lönd. Viljastyrkur hans kom best í ljós þegar hann fyrir nokkrum árum þurfti að breyta vinnuaðferðum sínum eftir alvarlegt slys. Áfram skyldi unnið, ekki kom til greina að leggja árar í bát. Tryggvi segir lesendum Glettings frá sjálfum sér og listinni, námi og starfi hér heima og í Kaupmannahöfn. Ég þakka Tryggva fyrir viðtalið og þeim Gerði fylgja bestu óskir Glettings.

Ég er fæddur á Norðfirði árið 1940 og man eiginlega lítið sem ekkert frá stríðinu. Faðir minn kom frá Berufirði og móðir mín var aðflutt líka. Hún var úr Lóni og ég er hreinræktaður Skaftfellingur í móðurætt. Ég ólst upp á Norðfirði til sextán ára aldurs og hafði áhuga fyrir bátum og skipum og öllu sem þeim við kom. Ég fór á handfæri og vann í frystihúsinu eins og allir aðrir. Ég flutti svo til Reykjavíkur sextán ára gamall árið 1956 og fór þá í Menntaskólann í Reykjavík.

Móðir mín dó árið 1957, það varð föður mínum mikið áfall og heimilishaldið flosnaði upp. Eftir það bjó ég einn í herbergi og var á togurum og síldarbátum. Ég las tvo síðustu bekki menntaskólans utan skóla og tók stúdentspróf 1960. Það var skrýtið að koma í land af togaranum í apríl, lesa svo allan maí og fara í próf, því fylgdi mikið stress. Ég fór til kennaranna og þeir sögðu mér hvað ég skyldi lesa og hverju ég gæti sleppt. Mig dreymdi þessi próf í mörg ár eftir að ég kom til Kaupmannahafnar, það var hrein martröð, ég gat aldrei vitað hvort ég væri fallinn eða ekki, ég hafði engan samanburð því að ég hafði ekki setið í tímunum.

Ég stundaði líka nám í Handíða- og myndlistarskólanum en svolítið með höppum og glöppum. Ég átti ekki fyrir mat og fékk leyfi hjá Sigurði Sigurðssyni yfirkennara til að fara túr og túr á togara. Ég var þess vegna ekki reglulegur nemandi en ég fékk umsögn sem þýddi það að ég væri útskrifaður úr skólanum.

Ég hafði fengið að vita það hjá kunningja mínum, Alfreð Flóka, að ég gæti kannski komist á málaraskóla í Kaupmannahöfn, Konunglega listaháskólann. Ég var búinn að vera með málaradellu alveg síðan ég var barn því að þessi málaradella er algerlega meðfædd. Ég hef aldrei fengið frið fyrir henni. Svo sendi ég sex myndir til Kaupmannahafnar vorið 1961, ég málaði þær í litla herberginu mínu á Nönnugötu 16. Ég fer síðan á togara á Patreksfirði og var þar alveg fram á haust. Þegar ég kom til Reykjavíkur var komið þetta fína, fína bréf frá Det Kongelige Kunstakademiet. Ég hugsaði með mér: Hvað er þetta eiginlega? Og þá fékk ég að vita að ég gæti bara komið inn á skólann. Síðan þurfti ég að slá peninga meira og minna og fór svo með Gullfossi 4. nóvember 1961 til Kaupmannahafnar.

Áætlunin var að vera þar við nám í fimm ár en svo var ég eitt ár aukalega á Grafíkskólanum. Ég kvæntist árið 1962, henni Gerði Sigurðardóttur sem er hérna ennþá. Svo varð það úr að við vildum vera svolítið lengur og það endaði með því að við vorum í Kaupmannahöfn í 47 ár og það gekk bara ljómandi vel í alla staði.

Við eignuðumst tvö börn saman, hún átti einn son fyrir og hann kom til okkar 1963 þegar hann var þriggja ára, hafði verið hjá afa sínum og ömmu hér í Reykjavík. Við eigum orðið ellefu barnabörn – tíminn líður – og við eigum tvö langafa- og langömmubörn. Okkur finnst við bara vera rík. Við fluttum til Reykjavíkur árið 2008 þegar allir sögðu hvað ég væri mikill vitleysingur, nú væri ég að koma til landsins þegar allir hinir væru á förum.

Ræturnar á Norðfirði
Ég átti kennara heima á Norðfirði sem var auðvitað ekki lærður í myndlist en var mjög flinkur, hjálplegur og samviskusamur maður. Hann hét Jóhann Jónsson og kenndi okkur teikningu. Svo lenti ég í slagtogi með manni frá Dalatanga sem hét Sveinn Vilhjálmsson og var tómstundamálari, ljúflingsmaður mikill. Hann málaði myndir af íslensku landslagi og ég tók eftir því að hann var að breyta myndunum. Ég hélt að ef maður málaði fjallatindana á Norðfirði yrðu þeir að vera réttir. En málið er það að í myndlist er ekkert sem heitir rétt – það er bara eitthvað sem heitir rétt í myndinni. Það er alls ekki hlutverk myndlistar að apa eftir veruleikanum því að það er enginn einn veruleiki til. Sveinn var kannski að mála mynd af Snæfelli og hann var að breyta steinunum í forgrunninum og skugganum í snjónum og fleiru. Þetta var mér alveg ný uppgötvun, að geta haft þetta bara eins og maður vildi.

Þótt ég hefði ekki kynnst neinni myndlist heima á Norðfirði hefði ég sennilega samt málað, myndir voru mér alger ástríða, það er bara meðfætt. Eins og ég er búinn að segja svo oft áður, sumir menn þurfa endilega að glamra á píanó fimm tíma á dag og aðrir þurfa að spila á flautu, ég þurfti alltaf að vera að mála og mála. Ég stal málningarafgöngum í Slippnum og málaði á pokastriga, spjöld og hurðir og margt fleira. Ég er ekki að gefa í skyn að ég sé einhver Mosart en ég er fæddur með þessa maníu, það er ég alveg sannfærður um. Það sem kynti undir þessari myndadellu minni var hvað faðir minn átti feikilega gott bókasafn. Það var alveg gull fyrir mig að skoða Gyldendals Verdenshistorie og alls konar myndabækur á ensku og frönsku. Þetta var mitt vídeó í þá daga, getum við sagt. Ég kynntist þess vegna snemma verkum klassískra málara.

Ég byrjaði bara að mála skipin og fjöllin sem eðlilegt er, það komst ekki annað fyrir á Norðfirði en fiskur og skip, ég hafði mikinn áhuga fyrir því. Þegar ég var krakki var minn draumur að komast á skip og sigla kringum hnöttinn. Það var minn draumur, það gerði ég svo aldrei. Ég hef aldrei farið lengra en til Ameríku. Það voru þrír hlutir sem ég hafði áhuga fyrir: Að verða prentari, stýrimaður eða þá málari. En mér fannst ótrúlegast að ég gæti lært að verða málari í útlöndum.

Fyrstu myndirnar mínar voru landslagsmyndir en svo kynntist ég fljótlega málurum hér í Reykjavík, þar á meðal Einari Baldvinssyni. Hann tók kannski myndir af bátum með seglum og breytti þeim í afstrakt. Ég var upptekinn af þessu á tímabili og byrjaði á þessu sjálfur og málaði nokkrar afstraktmyndir, rétt um 1960.

Námið í Kaupmannahöfn
Ég fór að ráðum Alfreðs Flóka, vinar míns, sendi sex myndir til prófessors í Kaupmannahöfn. Hann hét Hjorth Nielsen og hann sá eitthvað við þessar myndir og sagði bara: Látið hann koma. Hann vildi fá menn frá Norðurlöndunum á skólann hjá sér. Í þá daga voru prófessorarnir eins og smákóngar. Svo kom ég til Kaupmannahafnar og hélt að ég væri kominn inn á voðalega fínan, konunglegan skóla – sem ég náttúrlega var, þannig séð – ég þéraði alla og það hlógu allir að mér fyrst. Hjort Nielsen varð mikill vinur minn, allt til dauðadags, 1983. Ég held að enginn maður hafi gert mér eins gott í lífinu, fyrir utan foreldra mína, eins og hann, þetta var öðlingur, fróður, lífsreyndur og ég lærði mikið um lífið af honum. Hann gaf mér heilu strangana af lérefti og pensla og allt mögulegt.

Við vorum látnir teikna módel á skólanum sem er afskaplega góð grunnkennsla. Við þurftum að teikna stelpurnar, sem voru þarna berrassaðar, í líkamsstærð á stórar pappírsarkir. Það fyrsta, sem kennari minn, Hjorth Nielsen, gerði, var að láta mig hafa kol og rúllu með pappír. Svo reif maður af rúllunni, festi á spjald með teiknibólum og fór að teikna. Ég var nú aldrei neitt óskaplega góður við það en í þessu fólst mikill lærdómur í því að skilja byggingu í myndum. Þetta hefur verið praktíserað allt frá Forngrikkjum og var raunverulega það fyrsta sem maður lærði í klassískri myndlist. Við áttum svo að mála uppstillingar, blómapotta og fleira, það þótti mér afskaplega danskt og gamaldags. Mér fannst hér um bil ég kunna það.

Ég vildi fara að mála myndir eftir ljósmyndum í blöðunum, ég var upptekinn af myndum fransks afstraktmálara sem sýndu hreyfingar fólks, til dæmis í körfubolta, handbolta og fleiri íþróttum. Ég málaði nokkrar myndir þannig og ég mátti það, það var ekki augljóst því að auðvitað á maður að gera það sem manni er sagt. Ég málaði svo þessar blómamyndir, banana og epli og fleira og ég er ekkert að gera lítið úr því en ég mátti mála þessar myndir til hliðar við það.

Ég vann á sumrin á ýmsum stöðum í Kaupmannahöfn meðan á náminu stóð, ég var gluggapússari upp á akkorð hjá járnbrautunum, ég vann hjá Burmeister & Wain, þar var ég nú bara sópari. Svo vann ég í sykurverksmiðjunum, einnig á þremur vínlagerum sem afgreiðslumaður á víni í heildsölu og á mublulager og víðar.

Lifað af listinni
Ég fór svo að mála á eigin spýtur eftir að ég hætti á skólanum, árið 1967. Það gekk mjög þunglega í upphafi og Gerður bar nú eiginlega hlassið fyrstu árin. Ég tek það fram – nú er ég að spauga en það er engu að síður satt – að ég er búinn að borga það til baka. Við erum búin að fara í mörg ferðalög, um alla Evrópu og víðar. Þá hef ég alltaf haft kærustuna með mér. Hún er ekkert ósátt við það. Svo fór þetta nú að liðkast allt saman þegar kom fram yfir 1970, þá fór ég að selja svolítið af myndum, þá fór þetta nú að lagast. Ég seldi í galleríum í Reykjavík og í Kaupmannahöfn, náttúrlega. Eftir 1990 var ég farinn að hafa mjög góðar tekjur, seldi myndir til Svíþjóðar og í Danmörku líka. Ég er ennþá í sambandi við gallerí í Kaupmannahöfn sem selja grafíkmyndirnar mínar, þessar nýju.

Ég var með vinnustofu á einum sex stöðum í Kaupmannahöfn á ferlinum. Ég hafði varla efni á að koma mér upp vinnustofu í upphafi en fékk litla kompu úti á Amager, við hliðina á vinnustofu vinar míns, Zachariasar Heinesen, sonar Williams rithöfundar. Leigan var 70 danskar krónur á mánuði sem voru ný útgjöld fyrir okkur, fólk sem ekkert átti. Ég málaði auglýsingaskilti fyrir dansskóla í grenndinni og það borgaði raunverulega vinnustofuna í einn vetur eða þar um bil. Svo liðu nú nokkur ár sem ég málaði bara heima. Sannleikurinn er sá að málarar eru svona hálfgerðir indíánar, þeir eru bara ekki inni í samfélaginu, það byggir enginn vinnustofur fyrir málara. Þeir geta verið í einhverju sem er að grotna niður. Ég hef aldrei verið neitt fínn með mig, ég hef alltaf getað hreiðrað um mig þar sem ég hef verið og hef aldrei verið með fínar né stórar vinnustofur, mér er alveg sama um það.

Þegar ég hætti á skólanum, og eftir að hafa verið þennan vetur í grafíkinni, fór ég að mála heima. Mig langaði að mála fígúratívar myndir, til dæmis af fólki og var í miklu brasi með það. Þá var ég orðinn gluggapússari hjá járnbrautunum og hirti myndablöð sem farþegar skildu eftir í hraðlestinni frá Ítalíu. Ég leigði svo vinnustofu af kunningja mínum, listmálaranum Erik Hagens, veturinn 1968–1969. Þann vetur málaði ég þessar fyrstu myndir sem menn kölluðu popplistamyndir. Svo fór ég að þróa þær smátt og smátt og sýndi þær hér í Reykjavík, í Gallerí SÚM 1969. Það var fyrsta sýning mín hér á landi, fyrir utan sýningu sem ég hélt í Menntaskólanum þegar ég varð stúdent. Á bak við skólann var kennslustofa sem kölluð var Fjósið – sem hafði verið fjós áður – þar hélt ég sýningu vorið sem ég varð stúdent. Þar seldi ég fyrstu tvær myndirnar á ævinni, fyrir utan þá allra fyrstu sem Vilhjálmur frá Skáholti seldi fyrir mig í Listmunakjallaranum. Við vorum miklir vinir á tímabili, ég og Villi, svo dó hann, blessaður, rétt eftir að ég fór til Kaupmannahafnar og ég sá hann aldrei aftur. Ég málaði ekki undir áhrifum popplistarinnar nema kannski eitt ár eða svo en það var eins og inngangur að því að fara úr afstraktmálverkinu yfir í það að mála eitthvað áþreifanlegt. Ég sá allt í einu möguleikana, ég gat ómögulega farið að mála danskt landslag, það var alveg af og frá.

Ég hafði farið á Louisiana og þar var Bandaríkjamaður, sem hét Roy Lichtenstein, að sýna aflanga, mjög stóra mynd af herþotu í spaghettí – þetta var á árum Víetnamstríðsins. Myndin var sterk ádeila, þetta var okkar menning á leið til Asíu. Hún kveikti í mér alveg óskaplega þessi mynd. Margir þessir amerísku popplistamenn voru raunverulega að dýrka allsnægtaþjóðfélagið, það vakti ekki fyrir mér. Ég hugsaði með mér að það mætti segja eitthvað með þessari aðferð, með því að blanda saman ólíkum formum og teikna þetta upp – mér liggur við að segja þjóðfélagslega. Svo hélt ég áfram og þróaði þessa hluti á minn hátt, eiginlega alveg fram á þennan dag á ýmsan máta. Ég er búinn að prófa ýmislegt en það hefur aldrei verið neitt halelúja fyrir Bandaríkin.

Ég hef aldrei apað eftir neinum. Ég ætla ekki að vera með nein merkilegheit en mér finnst ég aldrei hafa haft neina samkeppni – einfaldlega vegna þess að ég hef alltaf farið mínar eigin götur, þróað mínar aðferðir.

Ég lít oft á hlutina eins og hráefni. Þess vegna sögðu menn oft við mig í Danmörku: Saknarðu ekki fjallanna? Ég sagðist bara búa þau til eftir þörfum. Þar að auki átti ég svo mikið af ljósmyndum af fjöllum. Ég hef alltaf safnað myndum, úrklippum og ýmsu dóti, ég á mörg þúsund ljósmyndir, það er mín gullakista.

Ég hef blinda trú á vinnu
Sannleikurinn er sá að ég fór til Kaupmannahafnar 21 árs gamall og flutti til Íslands aftur 68 ára. Það er ekki svo að skilja að ég hafi aldrei komið heim á þessum árum, ég hélt sýningu á Íslandi eiginlega fast annað hvert ár allt þetta tímabil. Ég er búinn að halda um 40 sýningar hér á landi. Ég sýndi venjulega annað hvert ár í Danmörku, í galleríum í Kaupmannahöfn eða úti á Jótlandi og víðar og einstöku sinnum líka í Svíþjóð. Ég sýndi því á hverju einasta ári og til þess þurfti maður að framleiða eitthvað og það gerði ég. Það er ekki til neinn skóli sem er eins góður og að vinna, ég hef blinda trú á vinnu. Mér finnst gott að geta sagt núna, þegar ég er 75 ára gamall, að maður hafi þó alla vega gert eitthvað. Föður mínum leist ekkert á þegar ég fór til Danmerkur að læra að mála, það leist honum ekki á.

Ég slasaðist svo í byrjun árs 2007. Við bjuggum þá í eigin íbúð sem við höfðum átt í tólf ár. Hún var á annarri hæð og við þurftum því að skipta um húsnæði, út af mér, úr því að ég missti fótanna eftir að hafa hálsbrotnað. Dóttir okkar spurði hvers vegna við flyttum ekki til Íslands og sagði okkur frá íbúð sem væri til sölu í nágrenni við hana. Við slógum svo til og fluttum hingað, að Öldugranda 5. Börnin okkar voru flutt til landsins áður, öll þrjú.

Þörf fyrir fegurð
Ég missti möguleikann að geta málað af sama krafti og áður eftir að ég slasaðist. Ég er þó með smákraft í hægri hlið og fyrst ég hafði lært þessa grafík á skólanum í Kaupmannahöfn hugsaði ég með mér að einhvern veginn yrði ég að búa til myndir. Ég yrði að halda áfram að nudda með það. Ég kynntist einum af eigendum prentsmiðjunnar Guðjón Ó. Hann sagði að ég gæti fengið að búa til myndir þar eins og ég vildi. Þessar nýju myndir mínar eru litografía sem áður nefndist steinþrykk. Ég gæti ekki búið þær til nema með aðstoð góðra manna. Þeir hafa þolinmæði til að gera þetta eins og ég vil hafa það, áður hefði ég getað unnið myndirnar einn, á verkstæði. Steinþrykkinu fylgdu þungar og miklar pressur og þeim þurfti að snúa með handafli með stórum hjólum, núna er allt rafknúið og notaðar álplötur í stað steina. Ég var dálítinn tíma að komast í samband við þessa nýju tækni. Við fórum að ræða um þetta og undirbúa vinnuna fyrir um fimm árum síðan og ég bjó til fyrstu myndina haustið 2013. Ég hef sett mér þá áætlun að ljúka við eina mynd á mánuði og hefur tekist það nokkuð vel.

Ein af þörfum mannsins er þörfin fyrir fegurð, hún er bara misjafnlega sterk hjá fólki. Ég held að fegurðarskynið komi bara frá því að barnið er á brjósti hjá móðurinni. Ég hef haft þessa myndaþörf, það eru alveg hreinar línur með það, hún fer aldrei. Þegar ég er á ferðalögum og geri ekki neitt – og líður ágætlega við að sjá myndir, verk eftir aðra menn – þá fer mig að lengja eftir því að gera eitthvað sjálfur.

Hvað myndirnar mínar duga lengi eftir að ég er allur, það veit ég ekki. Þær verða bara að standa fyrir sínu. Tíminn er harður dómari og hann á að vera það.