Skip to main content

.

 

Gamla myndin - Fjörður í Mjóafirði

Fjörður í Mjóafirði

Myndina tók Björn Björnsson um 1940 af Firði (Fjörður I) sem stendur í botni Mjóafjarðar að norðanverðu. Fjölbýli var á Fjarðartorfunni. Hin býlin (samheiti í sviga) voru Fjörður II (Kot, Fjarðarkot, Innri?Fjörður), Fjörður III (Leiti), Fjörður IV (Friðheimur) og Völvuholt. Til viðbótar tvö eyðibýli; Hólar og Tunga. Land jarðarinnar er óskipt en búskap lauk þar 1956. Mjóafjarðarfjöllin byrgja sólarsýn í Firði frá 12. október til 3. mars. Húsið á myndinni er timburhús með járnþaki og steinlímdum kjallara, 13,86x7,56 m. 1

Samkvæmt Landnámu nam Eyvindur Mjóafjörð og bjó í Firði. Bændakirkja var þar uns hún var flutt að Brekku 1892. Þar bjó „Hermann í Firði“ (f. 1749, d. 1837) en af honum eru komnir Brekkumenn og Viðfirðingar. Hann „....kvaðst muna eftir járnskó skessunnar [Mjóafjarðar-] sem fallið hafði af henni þá er hún sté skarðið úr garðinum; var skórinn hafður fyrir sorptrog.“ Mjóafjarðarskessan lifði m.a. á prestunum í Firði. Það sannaðist er ferðamaður spurði hana á hverju hún héldi; ....Ég er nú að kroppa seinast um hauskúpuna af honum séra Snjóka....“ svaraði skessan.2

Sumarið 1950 kannaði Ingólfur Davíðsson gróður í Mjóafirði. Þar segir m.a.: „Garður í Firði (Gamli kirkjugarðurinn). Gildur reynir 5,80 m hár; fjórir aðrir um 6 m. Lerki 5 m; tvítug skógarfura 2,70 m; hlynur 4 m. Ennfremur lágvaxnari heggur, álmur og nokkur birkitré, ribs og rauðblaðarós. Elstu trén eru 30?40 ára. Stærsta reynitréð (og kannski fleiri líklega norskt, gróðursett af Ólafi Ólafssyni í Firði.3 Hluti garðsins sést á myndinni en fróðlegt væri að skoða hann nú um 75 árum síðar.

Mynd: Björn Björnsson
Texti: Skarphéðinn G. Þórisson

Tilvísanir

1. Sveitir og jarðir í Múlaþingi II:bls. 535?536.
2. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I, Jón Árnason 1993: bls. 146?147.
3. Sveitir og jarðir í Múlaþingi II: bls. 505