Skip to main content

.

 

Ljóðin - Hans Børli

Vigfús Ingvar Ingvarsson þýddi úr norsku.
Höfundur: Hans Børli

Fífan í Lómatjarnarmýrum

Verði ég hólpinn,
þrátt fyrir allt,
og komi til bústaða hinna sælu
mun ég segja við erkiengilinn:

– Ég hef séð það sem var
hvítara en vængir þínir, Gabríel!

Ég hef séð fífuna í blóma
á Lómatjarnarmýrunum

heima á jörðinni.

Skýrslan úr grasrótinni

Ég er lítill maur.
Það hljóðnar yfir stígunum
og það rökkvar að kvöldi í skóginum.
Allir vitibornir, eldri skógarmaurar
eru fyrir löngu komnir í hús
með barrnálarnar sínar – en ég
brölti áfram í rökkrinu,
tilbúinn með griparmana
yfir blaktandi língresisstrái.
Væri, jú, frábært
að koma heim í þúfuna með
stjörnu í eftirdragi ...

Lítil gleðiefni

Bragð af heimabökuðu rúgbrauði
með ilmandi stökkri skorpu,
nýstrokkað smjör, saltdöggvað
með söxuðum graslauk
snemma á sumarmorgni
er skugginn af laufi
fálmar um vaxdúkinn á eldhúsborðinu
– jafnvel þótt þú hafir ekki upplifað meira ...

Skáldið og skógurinn

Þegar skógurinn muldrar umhverfis þig
og kvöldgolan sígur
hvíslandi
inn í sólarlagið,
þá er eins og allt sé sagt.
Orðin sem þú burðast með
skrölta tóm inni í þér
eins og grænjaxlar
á botni blikkfötu.

Ekkert okkar

Ekkert okkar
lifir af lífið.
En því minna sem þú hefur lifað,
í því meira myrkri deyrð þú.

Hamingjan

Það er með hamingjuna
eins og villt dýr í skógi:
Hún öðlast traust
og nálgast búðir þínar þegar
þú ert hættur að elta hana.

Ljóðin eru birt með leyfi erfingja höfundar.

Vigfús Ingvar Ingvarsson

Vigfús Ingvar Ingvarsson er fæddur árið 1950 á Desjarmýri í Borgarfirði eystra og ólst þar upp. Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1970, prófi í hagnýtri kennslufræði frá HÍ 1974 og guðfræðiprófi 1976. Vigfús var sóknarprestur Vallanesprestakalls, með búsetu á Egilsstöðum, 1976–2010. Hann stundaði framhaldsnám og símenntun vestanhafs sumrin 1983 og 1988 og í Þýskalandi 1993–1994. Vigfús hefur fengist við þýðingar og önnur ritstörf.

Hans Børli (1918–1989) er á meðal ástsælustu ljóðskálda Norðmanna eftir stríð. Hann ólst upp á Heiðmörku, fátækt og stríð takmörkuðu skólamenntun. Hann stundaði skógarhögg meðan heilsa leyfði jafnframt umfangsmiklum ritstörfum, mest ljóðagerð. Tryggur átthögunum og fábreyttum lífsháttum varð Børli vel lesinn og víðsýnn. Náttúran, hið stóra í því smáa, trú og viss kaldhæðni, strit, vinnugleði, barátta, réttlæti, fegurð og viska – endurspeglast í ljóðum hans, oft í grípandi einfaldleika, sérstaklega náttúrumyndirnar. Børli var tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1970.