Skip to main content

.

 

Ljóðin - Andrés Björnsson

Andrés Björnsson

Andrés Björnsson er fæddur á Gilsárvelli á Borgarfirði eystra árið 1962. Ólst hann þar upp við hefðbundin störf á sauðfjárbúi sem hann tók svo við. Stundaði fiskvinnu með búskap, fyrst hjá K H B á Borgarfirði og síðar hjá Fiskverkun Kalla Sveins. Auk þess sláturhússtörf á haustin á Borgarfirði og Fossvöllum. Fékk snemma áhuga á vísnagerð og hefur stundum tekið þátt í hagyrðingamótum.
Kostur eða galli

Af kostum og göllum þau kynstur ég á
að kalla má hreinustu undur.
En trúlega grófasti gallinn er sá
að greina þá ekki í sundur.


Toppur

Fyrir löngu hafði ég hár
og held að sú minning nægi.
Ég topplaus hef verið í tíu ár
og tel það í góðu lagi.


Að koma eða fara

Lítið skil ég í þeim öllum
sem ætíð vita rétta svarið.
Alveg kem ég oft af fjöllum
án þess að hafa þangað farið.

Eins og glópur geng ég bara
um götu sem ég lítið þekki.
Þess vegna ég þarf að fara
þangað sem ég ætla ekki.

Stundum ég á faraldsfæti
fram og aftur ráfa um bæi.
Sjálfum mér þá sífellt mæti
og sé að það er ekki í lagi.


Spegill eða mynd

Að þekkja mynd frá spegli er mikil glíma
og mínu útliti ég get ei treyst.
Ég glápti á sjálfan mig í góðan tíma.
– Guð hvað Móna Lísa hefur breyst.
Skógarbændur

Í skógræktinni allt sinn tíma tekur,
með tekjurnar er staðreynd nokkuð köld.
Bóndinn reit með birkiplöntum þekur
og bíður svo í rúma hálfa öld.

Ekki hagnast skógarbóndi í skyndi,
það skeður allt svo hægt, án nokkurs gríns.
Það sýnist eins og sauðfjárbóndinn myndi
setja á undan tannfé afa síns.


Í hverju er ég góður

Með afrekum sumir auka sinn hróður,
í öllu bestir þurfa að vera.
Ég held að ég sé bara helvíti góður
að hjálpa þeim sem er ekkert að gera.


Ferðamannasprengja

Að flakka um er ferðamannsins gaman,
það finnast margir ævintýragjarnir.
En springi túristarnir tugum saman
er trúlegt að það séu Kínverjarnir.


Grái fiðringurinn

Besta aldri brátt ég næ
og bjargföst er mín trúin:
Ég engan gráan fiðring fæ
fyrr en hinn er búinn.


Sjötta skilningarvitið

Að hafa vitin fimm er flott,
það finnst mér lágmarkskrafa.
En sannarlega samt er gott
sexvitið að hafa.