Skip to main content

.

 

Gamla myndin - Komið úr róðri við Þrándarós í Suðursveit

Komið úr róðri við Þrándarós í Suðursveit

Í Suðursveit var róið til fiskjar áður fyrr og allt fram undir árið 1960. Steinþór Þórðarson á Hala segir í bók sinni „Nú-nú“ að matbjörg íbúa Suðursveitar hafi lengi vel verið sjórinn. Róið var frá hafnlausri strönd og helsti útróðrarstaður var fyrir miðju sveitar, við Þrándarholt í Bjarnarhraunssandi. Einstöku sinnum við bestu aðstæður var þó róið um svokallaðan Þrándarós eða Þránd, sem er ós Staðarár, en hún rennur stundum til sjávar við Þrándarholtið, en í annan tíma austur í Hestgerðislón. Það var þó undantekning og aðeins var hægt að fara um Þránd á háflóði eða þá á liggjandanum þar sem sker eru utan við. Oftast var skipunum því bara rennt beint upp í fjöruna og afl úthafsöldunnar nýtt til að bera þau sem lengst upp á land.

Þessi mynd er tekin þegar Borghefningar og Miðþorpsmenn voru að koma úr róðri á sjötta áratug síðustu aldar. Sjóveður var með eindæmum gott svo að hægt var að róa um Þránd og eru þeir komnir í land aftur með drekkhlaðinn bátinn. Þrándarholtin sjást í baksýn. Róið var á Vagninum, sexæringi sem Skarphéðinn Gíslason á Vagnsstöðum smíðaði laust eftir 1940.

Á myndinni er hægt að þekkja Steinþór Benediktsson á Kálfafelli sem tók á móti þeim í fjörunni, Guðmund Jónsson í Suðurhúsum, Ingimar Bjarnason á Jaðri, Gunnar Stefánsson í Borgarhöfn, Jóhann Björnsson á Brunnum og Þorstein Jónasson í Lækjarhúsum. Þórarinn Gunnarsson á Vagnsstöðum segist hafa verið með í för og líklega hefur Benedikt Þórðarson á Kálfafelli einnig róið til fiskjar þennan dag svo að það eru þá þeir sem eru svo önnum kafnir við að koma aflanum á land.

Mynd: Vigfús Sigurgeirsson ljósmyndari
Texti: Þorbjörg Arnórsdóttir