Skip to main content

.

 

Gamla myndin - Kopti á Egilsstaðaflugvelli

Á vængjum vildi ég berast

Egilsstaðaflugvöllur hefur löngum verið vettvangur áhugasamra heimamanna um flug og um skeið var hér rekið Flugfélag Austurlands og væri þess vert að rekja sögu þess í rituðu máli áður en hún fyrnist frekar í minni manna.

Á árunum 1965 til 1973 bjó á Egilsstöðum maður að nafni Edmund Bellersen. Eins og nafnið bendir til var hann þýskur að uppruna og notaði tímann hér eystra til ýmissa þroskandi tómstunda, hann var fróðleiksfús í meira lagi, þokkalega uppátækjasamur og féll afar vel inn í hóp ævintýragjarnra heimamanna.

Á myndinni sjáum við eina af hugmyndum hans orðna að veruleika. Sumarið 1967 keypti hann ósamsetta eins manns þyrlu, svonefndan gírókopta af Bensen gerð.

Frá þessu segir í Flugvirkjablaðinu 2001 á eftirfarandi hátt:

Edmund var nú ekkert að vanbúnaði og las yfir teikninguna og fyrirmæli framleiðandans um smíðina. Þar stóð skýrum stöfum að við smíðina yrði að nota fasta verkfæralykla og toppa. Það væri með öllu bannað að nota skiptilykla. Edmund fór strax í járnvörudeild KHB og keypti sér meðalstóran1 BACHO skiptilykil sem hann notaði við smíðina og á reyndar enn [2001]. Þegar gírókoptinn var tilbúinn um sumarið 1968 mælti framleiðandinn með því að koptinn yrði dreginn á loft með um 10 metra bandi til að flugmaðurinn fengi tilfinningu fyrir því að fljúga og stjórna gírókoptanum.2 Edmund hélt aftur í járnvörudeild KHB og keypti sér 100 metra nælonband! Bundinn aftan í bifreið á Egilsstaðaflugvelli var hann dreginn af stað, mótorblöðin3 byrjuðu að snúast og hóf hann gírókoptann í loftið og náði fljótt mikilli hæð. Þar sem nælonbandið ýmist strekktist eða slaknaði fór Edmund upp eða niður, en segist sjálfur hafa verið furðu fljótur að fá tilfinningu fyrir vélinni ...

Gírókopti er frábrugðinn venjulegri þyrlu að því leyti að stóru þyrluspaðarnir eru ekki mótordrifnir, en snúast fyrir loftþrýstingnum sem verður þegar tækinu er flogið. Mótorinn snýr hins vegar skrúfu sem snýr aftur úr vélinni (rassmótor). Þannig nýtast þyrluspaðarnir svipað og disklaga flugvélavængir á meðan venjuleg þyrla nýtir þá til að draga sig áfram. Þyrla hallast því frekar fram á fluginu á meðan gírókopti hallar aftur.

Texti: Sigurjón Bjarnason
Ljósmynd og aðstoð við texta: Edmund Bellersen
Eigandi myndar: Ljósmyndasafn Austurlands


1. Edmund segist eiga skiptilykilinn ennþá árið 2017 en hann sé lítill, ekki „meðalstór“.
2. Edmund segir nú að leiðarvísirinn mæli fyrir um að koptinn skuli „dreginn á loft með 3–6 m kaðli.“
3. Hér er átt við þyrluspaðana ofan á koptanum.