Skip to main content

.

 

Ritstjórinn - Magnús Stefánsson

MagnusStefansson

Ágætu lesendur

Nýtt hefti Glettings er allt of seint á ferðinni miðað við áætlanir um útgáfuna og eru áskrifendur beðnir velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á útkomu þess.

Til að koma reglu á útgáfu tímaritsins að nýju hefur stjórn útgáfufélagsins ákveðið að þetta nýja tölublað verði það eina sem merkt verður 19. árgangi. Næsta eintak, sem kemur út í ársbyrjun 2010, verður því fyrsta tölublað 20. árgangs. Með þessu hefti fá áskrifendur gíróseðil vegna innheimtu áskriftargjalds að upphæð kr. 1.000, fyrir þetta eina blað ársins 2009. Stjórnin vonar að áskrifendur og aðrir velunnarar Glettings séu sáttir við þessa niðurstöðu.

Næsta tölublað verður í ritstjórn ungs háskólanema af Fljótsdalshéraði, Gunnars Gunnarssonar. Margir þeirra sem séð hafa um Gletting síðustu ár eru komnir af léttasta skeiði svo að vissulega gefur það fyrirheit um nýstárlegt efnisval og breytt sjónarhorn þegar ungur ritstjóri spreytir sig og sýnir hvað í honum býr. Þessi orð má ekki skilja sem svo að í ráði sé að kollvarpa stefnu ritsins, slíkt stendur ekki til en fjölbreytt efni er Glettingi nauðsynlegt svo að hann falli sem flestum lesendum í geð. Áhugavert væri ef lesendur bentu aðstandendum blaðsins á efni sem þeir vildu sjá á síðum þess og vilji þeir birta eigin ritsmíðar er ekkert auðveldara en hafa samband við okkur.

Fámennur hópur stendur að tímaritinu Glettingi, í útgáfufélagið eru skráðir rúmlega tuttugu einstaklingar. Félagið var stofnað 19. apríl 1994 en þá hafði tímaritið komið út í þrjú ár í útgáfu Prentverks Austurlands. Vinna við Gletting hvílir mest á þeim sem hefur ritstjórnina með höndum hverju sinni og á gjaldkera félagsins, Sigurjóni Bjarnasyni, sem sér um fjárreiður allar og afgreiðslumál. Nöfn stjórnarmanna eru birt í blaðhaus á titilsíðu ritsins.

Stjórn útgáfufélagsins hyggst koma af stað vinnu við fjölgun áskrifenda en nokkur ár eru síðan vel heppnuð áskrifendasöfnun fór fram. Rætt hefur verið um að hefja söfnunina heima í fjórðungnum því að síðasta átak beindist einna helst að brottfluttum Austfirðingum. Útgáfufélagið væri þakklátt þeim lesendum sem athuguðu hvort einhverjir kunningjanna vildu gerast áskrifendur að Glettingi.

Unnar Erlingsson, grafískur hönnuður, tók við umbroti Glettings á síðasta ári af Skúla Birni Gunnarssyni sem hafði séð um þá vinnu um sjö ára skeið eða frá árinu 2001. Skúli Björn var jafnframt ritari útgáfufélagsins og eru honum þökkuð þessi störf hans fyrir blaðið. Skúli hafði fyrir stuttu gert verulegar breytingar á útliti ritsins svo að umskiptin urðu ekki áberandi þótt nýr maður tæki við.

Glettingur var prentaður á Akureyri um árabil eftir að Prentverk Austurlands leið en Prentmet ehf. í Reykjavík tók við frá þriðja tölublaði ársins 2004. Snemma á þessu ári ákvað stjórn útgáfufélagsins að bjóða prentunina út að nýju og í framhaldi af því var ákveðið að taka tilboði Héraðsprents ehf. á Egilsstöðum. Má því segja að Glettingur sé kominn heim í fjórðunginn á nýjan leik og þarf ekki að tíunda hagræðið sem því fylgir fyrir þá sem að ritinu vinna. Samstarfið við Prentmet var með ágætum og færir útgáfufélagið fyrirtækinu bestu kveðjur og þakkir.

Heimasíða Glettings, sem haldið hefur verið úti síðan um aldamót, stóðst ekki orðið kröfur tímans og var því nauðsynlegt að setja upp nýja og bætta síðu. Þetta verk annaðist umbrotsmaður okkar, Unnar Erlingsson. Heimasíðan er fyrst og fremst ætluð til kynningar tímaritsins og útgáfufélagsins auk auglýsinga og upplýsinga um áskrift að Glettingi. Þar verður einnig að finna valdar greinar úr eldri blöðum. Lesendur eru hvattir til að skoða nýju síðuna, www.glettingur.is.

Magnús Stefánsson